ÍR liðið reyndist of sterkt fyrir Stólastúlkur
Tindastóll og ÍR mættust öðru sinni í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í Síkinu í dag. Breiðhyltiingar unnu fyrsta leik liðanna í liðinni viku nokkuð örugglega þó lið Tindastóls hafi bitið frá sér. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í fjögurra liða úrslit og það gerðu ÍR-ingar í dag. Lokatölur 39-68 og Stólastúlkur því loks komnar í sumarfrí eftir strembinn kófvetur.
Gestirnir náðu undirtökunum eftir um fimm mínútna leik, komust í 6-12 en þá var Inga Sólveig þegar komin í villuvandræði í liði Tindastóls. Lið ÍR er reynslumikið og þó þar séu engar stórstjörnur þá kunna þær leikinn vel. Þær leiddu, 8-15, að loknum fyrsta leikhluta en heimastúlkur náðu ágætum kafla snemma í öðrum leikhluta, Eva Wium minnkaði muninn í 14-18, eftir rúmlega 13 mínútna leik og aftur í 18-22 stuttu síðar. Þá skildu leiðir og og skotin duttu í hjá gestunum en ekkert gekk hjá heimastúlkum. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks meiddist síðan Eva Wium og þar með voru trompin orðin ansi fá hjá liði Tindastóls.
Staðan í hálfleik var 22-36 og þrátt fyrir ágæta baráttu þá áttu stelpurnar aldrei möguleika í síðari hálfeik. Vörnin hélt þá ágætlega á köflum en gestirnir mölluðu áfram og tryggðu sér sæti í undanúrslitum 1. deildar.
Það væri synd að segja að Árni Eggert, þjálfari Tindastóls, hafi verið sáttur með dómgæsluna að þessu sinni og fannst sínar stúlkur ekki uppskera í samræmi við það sem þær áttu skilið. Inga Sólveig náði aðeins að spila í rúmar 13 mínútur áður en hún fékk sína fimmtu villu og komst fyrir vikið aldrei inn í leikinn og muna um minna. Marín Lind var stigahæst Stólastúlkna með 15 stig en Karen Lind hirt ellefu fráköst. Eva Wium náði að setja sex stig áður en hún fór meidd af velli en aðrir leikmenn Tindastóls skoruðu minna.
Fanndís Sverrisdóttir va aðsópsmest í liði ÍR, gerði 14 stig og tók sjö fráköst en Króksarinn í liði ÍR, Birna Eiríks, var seig og gerði ellefu stig og hirti fjögur fráköst. Þá var Margrét Blöndal með átta stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.