Ingimar sæmdur Gullmerki Landsambands hestamanna
Eiðfaxi segir frá því að stjórn Landsambands hestamanna sæmdi á laugardag Ingimar Ingimarsson, frá Flugumýri en nú ábúanda á Ytra-Skörðugili, Gullmerki samtakana við athöfn í Þráarhöllinni á Hólum. Við athöfnina sagði Lárus Ástmar Hannesson, formaður LH m.a.: „Við hestamenn hömpum okkar góða fólki á ýmsan máta. Sumir ná góðum árangri á keppnisbrautum, aðrir rækta afburða hesta og enn aðrir vinna góð verk, standandi í eldlínu félagskerfisins sem allt annað ber uppi. Það má segja að sá aðili sem við heiðrum hér í dag hafi skilað góðum verkum á öllum þessum sviðum.“
Í ræðu sinni sagði Lárus Ástmar einnig: „Það eru þrjár hestamyndir sem ég held mest uppá. Ein er af Alberti Jónssyni á Náttfara frá Ytra-Dalsgerði þar sem þeir fljúga yfir grundir á glæsilegu skeiði þar þarf ekki að velta fyrir sér hvort skeiðið er fjórtaktað.
Önnur af þessum myndum er af Bjössa á Varmalæk á Hrímni frá Hrafnagili. Myndin er líklega tekin á grundum Vindheima. Þar fer Hrímnir í fullkomnum höfuðburði á léttum stöngum og enginn múll. Fótaburðurinn er eins og best verður á kosið þó engar séu þyngingarnar. Knapinn, hann Bjössi á Varmalæk, situr eins riddari teiknaður á hestinn miðað við ýtrustu kröfur um ásetu sem á að vera til fyrirmyndar í einu og öllu.
Þriðja myndin er af áðurnefndum Ingimari á gæðingshryssunni Þrá frá Hólum þar sem hann er að sýna hryssuna 4. vetra í einkunnina 8:45. Hryssan er á flugskeiði og knapinn situr í fullkomnu jafnvægi með létt taumsamband. Beislabúnaðurinn er einfaldur, bara hringamél og enginn múll. Svo mikið veit ég um hesta að það þarf úrvals næmni, sanngirni og traust til að ná þeim árangri sem Ingimar náði með þetta unga tryppi og myndu fáir eftir leika.
Það sem mér finnst þó ekki minnst um vert í aðkomu Ingimars að hestaheiminum okkar í gegnum tíðina er hans endalausa jákvæðni, framsýni og auðmýkt sem við getum öll tekið okkur til fyrirmyndar.“
Feykir óskar Ingimari til hamingju með heiðurinn. Ræðuna má sjá í heild sinni á síðu Eiðfaxa og sömuleiðis myndskeið frá athöfninni.
Sjá nánar >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.