Hvíti riddarinn mátaður eftir góðan endaleik heimamanna á Blönduósi

Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI
Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI

Lið Kormáks/Hvatar tryggði endanlega sæti sitt í úrslitakeppni 4. deildar með sterkum sigri á helsta keppinaut sínum um annað sæti í D-riðlinum. Gestirnir í Hvíta riddaranum komust yfir snemma í síðari hálfleik en heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu og blésu til sóknar sem skilaði þremur mörkum áður en yfir lauk. Lokatölur 3-1.

Það var markalaust í hálfleik en Ægir Örn Snorrason kom þeim hvíta yfir á 50. mínútu og hleypti spennu í leikinn. Akil De Freitas jafnaði leikinn aðeins fimm mínútum síðar og á 70. mínútu kom Viktor Ingi Jónsson Húnvetningum í bílstjórasætið. Akil De Freitas skellti svo kreminu á kökuna á 80. mínútu og sigur heimamanna í höfn.

Fyrir leikinn var reyndar ljóst að allt þurfti reyndar að fara handaskolum hjá liði Kormáks/Hvatar ef það átti að verða af sætinu í úrslitakeppninni. Liðið hefði þurft að tapa fyrir Hvíta riddaranum og síðan í lokaumferðinni fyrir Samherjum sem sitja í neðsta sæti riðilsins. Miðað við flugið á Húnvetningum var það aldrei að fara að gerast.

Síðasti leikurinn Kormáks/Hvatar í riðlakeppninni fer fram næstkomandi laugardag þegar þeir kappar mæta galvaskir á Hrafnagilsvöll í Eyjafirði þar sem Samherjar taka á móti þeim. Úrslitakeppnin hefst síðan föstudaginn 27. ágúst.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir