Húnvetningar úr leik í Mjólkurbikarnum

Lið Kormáks Hvatar tók á móti Hömrunum frá Akureyri í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla en leikið var á Sauðárkróksvelli í dag. Eftir góða byrjun urðu Húnvetningar að bíta í það súra epli að fá á sig þrjú mörk í síðari hálfleik og tapaðist leikurinn 2-3. Lið Kormáks Hvatar því úr leik þetta sumarið.

Nýráðinn þjálfari liðsins, Ingvi Rafn Ingvarsson, kom sínum mönnum yfir á 8. mínútu og hann bætti við öðru marki á 22. mínútu leiksins. Akil De Freitas, markamaskína og aðstoðarþjálfari, varð að fara af velli eftir ríflega hálftíma leik en vendipunktur leiksins varð rétt fyrir hlé þegar Sigurði Aadnegard var vikið af velli og Húnvetningar því einum færri allan síðari hálfleikinn.

Endurkoma Eyfirðinga hófst á 60. mínútu þegar Atli Fannar Írisarson skoraði og hann jafnaði síðan leikinn átta mínútum síðar. Sigurmarkið gerði síðan Ottó Hólm Reynisson á 76. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki. Eyfirðingarnir því komnir í aðra umferð Mjólkurbikarsins.

Keppni í D-riðli 4. deildar hefst um miðjan maí en reiknað er með að fyrsti heimaleikur Kormáks Hvatar verði spilaður á Blönduósvelli 22. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir