Húnvetningar komnir með níu tær inn í úrslitakeppnina
Lið Kormáks/Hvatar er á siglingu í D-riðli 4. deildar en liðið vann sinn þriðja leik í röð í dag þegar þeir mættu Knattspyrnufélagi Breiðholts (KB) á Domusnovavellinum í dag. George Chariton hélt áfram að skora og kom gestunum yfir rétt fyrir hlé og Húnvetningar bættu við tveimur mörkum til að gulltryggja sigurinn áður en heimamenn klóruðu í bakkann í lokin. Lokatölur 1-3.
Spánverjinn markheppni gerði fjórtánda mark sitt í sumar á 45. mínútu og sá til þess að Kormákur/Hvöt var yfir í hálfleik. Jose Mariano Saez Moreno bætti við marki á 48. mínútu og Akil De Freitas gerði þriðja markið á 66. mínútu. Brynjar Magnússon lagaði stöðuna fyrir Breiðhyltinga með marki á 90. mínútu.
Úrslitin þýða að nú þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni þá eru Vængir Júpiters efstir með 33 stig en Kormákur/Hvöt í öðru sæti með 30 stig. Síðan koma Hvíti riddarinn og Léttir í þriðja og fjórða sæti með 25 stig, geta komist upp fyrir lið Kormáks/Hvatar en það verður að teljast afar ólíklegt.
Í næstu umferð mæta Húnvetningar liði Hvíta riddarans á heimavelli og í síðustu umferð fara þeir í Eyjafjörðinn og mæta liði Samherja sem er langneðst í riðlinum með einn sigur það sem af er sumri. Það yrði því stórslys ef Kormákur/Hvöt færi ekki alla leið í úrslitakeppnina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.