Húnvetningar bitu Úlfana af sér
Lið Kormáks/Hvatar komst aftur á sigurbraut í 4. deildinni nú um helgina eftir fíngert hikst í síðustu umferð gegn toppliði D-riðils. Það voru Úlfarnir úr Safamýri sem mættu til leiks á Húnavöku og gerðu heimamönnum erfitt fyrir. Mörkin komu öll í fyrri hálfleik en það voru heimamenn sem höfðu betur, sigruðu 2-1, og styrktu stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.
Hilmar Sólbergsson náði forystunni fyrir Úlfana eftir stundarfjórðung en markahrókurinn George Chariton hélt uppteknum hætti og skoraði fyrir heimamenn á 22. mínútu. Á 42. mínútu var það síðan hinn reynsluhokni stríðsmaður, Bjarki Már Árnason, sem gerði sigurmarkið í leiknum – væntanlega eftir fast leikatriði.
Í síðari hálfleik gerðist fátt markvert annað en að leikmönnum var skipt út og inn og dómarinn sýndi fimm leikmönnum gula spjaldið – sem var auðvitað viðeigandi í sólinni.
Kormákur/Hvöt er nú í öðru sæti riðilsins með 24 stig, þremur stigum á eftir Vængjum Júpíters sem tróna á toppnum. Hvíti riddarinn bar um helgina sigurorð af liði Léttis í toppbaráttuslag en lið Hvíta riddarans er eftir sigurinn í þriðja sæti með 22 stig en Léttir sitja eftir með 19 stig. Í næstu umferð sækir Hvíti riddarinn topplið Vængjanna heim á meðan Vatnaliljurnar heimsækja Blönduós. Ef Vængirnir sigra Hvíta riddarann er staða Húnvetninga orðin ansi vænleg – svo lengi sem þeir misstíga sig ekki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.