Hólmar Daði og Jónas Aron komnir í 100 leiki

Hólmar Daði og Jónas Aron. MYND: RÚNAR RÚNARSSON
Hólmar Daði og Jónas Aron. MYND: RÚNAR RÚNARSSON

Það eru ekki bara Stólastúlkur sem hafa verið að bætast í 100 leikja klúbbinn hjá Tindastóli. Í síðustu viku spiluðu Hólmar Daði Skúlason og Jónas Aron Ólafsson hundruðustu leiki sína í Tindastólsgallanum þegar Ægir úr Þorlákshöfn kom í heimsókn á Krókinn. Þeir fengu báðir blómvönd að leik loknum sem hefur vonandi slegið örlítið á svekkelsið eftir tap.

Báðir eru þeir sprungulausir Tindastólsmenn. Hólmar Daði, sem er sonur Lilju Jóns á Sleitustöðum og Skúla Braga, er 1995 árgerð og hefur þegar þetta er skrifað spilað 101 leik með liði Tindastóls og gert í þeim þrjú mörk. Hann hefur alla tíð spilað sinn bolta á Króknum og á einnig tólf leiki með liði Drangeyjar. Jónas Aron er árgerð 1999 en hann er sonur Óla Óla og Anítu Jónasar. Hann er búinn að gera átta mörk með Stólunum en líkt og Hólmar spilaði hann einnig nokkra leiki með liði Drangeyjar.

Af þeim sem spiluðu leikinn við Ægi eru nokkrir með meira en 100 leiki með liði Tindastóls. Arnar Ólafs komst í 100 leikja klúbbinn fyrr í sumar, nokkuð er síðan Konni komst yfir 150 leiki og Fannar Kolbeins er örfáum leikjum frá því að skila 200 leikjum fyrir Stólana. Þá er Óskar Smári á mörkum þess að hafa náð 100 leikjum með liði Tindastóls og gæti jafnvel náð þeim áfanga áður en tímabilið er úti ef Feyki bregst ekki reikningslistin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir