Hildur Heba meistari GSS í holukeppni
Árlega fer fram Meistaramót Golfklúbbs Skagafjarðar í holukeppni sem byrjar um miðjan júní og stendur í rúma tvo mánuði en að þessu sinni tóku 22 keppendur þátt. Að sögn Kristjáns Bjarna Halldórssonar, formanns klúbbsins, er holukeppni skemmtilegt fyrirkomulag og öðru vísi en önnur mót en keppendur eru dregnir saman í upphafi þannig að tveir mætast í hverjum leik.
„Höggafjöldi skiptir ekki öllu máli heldur er keppt um að vinna holur, reiknað með forgjöf. Sigurvegari heldur áfram í keppni en hinn er úr leik. Þannig er spilað koll af kolli inn í undanúrslit og loks úrslit. Keppnin í ár var spennandi en í úrslitaleik mættust þau Hjalti Árnason og Hildur Heba Einarsdóttir,“ segir Kristján. Bæði höfðu lagt verðuga andstæðinga að velli þegar í úrslitaleikinn var komið. Hildur Heba hafði borið sigur úr býtum á móti Arnari Geir, Andra Þór og Friðjóni. Leikurinn gegn Friðjóni var í undanúrslitum og var hann jafn og spennandi. Hjalti mætti Guðmundi Ágústi í undanúrslitum eftir að hafa lagt Ingva Þór og Önnu Karen að velli. Leikurinn gegn Guðmundi var fjörugur þar sem aðeins ein hola „féll“, þ.e. var jöfn.
Úrslitaleikurinn milli Hildar og Hjalta var jafn og spennandi. Hildur átti þá gott annað högg á sjöttu braut. „Hjalti var ný búin að slá sitt högg og var vel staðsettur á gríninu. Ég var aðeins of stutt í upphafshögginu og var rétt fyrir utan við flöt. Átti kannski fimm metra eftir og vippaði ofan í, segir Heba og Hjalti tekur undir að höggið hafi verið flott. „Við fórum framúr Dóra dómara og hollinu hans og á meðan þeir horfðu á setti Hildur Heba niður vipp fyrir fugli og þeir litu samúðaraugum til mín,“ segir Hjalti.
Hildur Heba Einarsdóttir er því meistari GSS í holukeppni árið 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.