Helgi Freyr með körfuboltanámskeið á Blönduósi
Helgi Freyr Margeirsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari Tindastóls, ætlar ekki að sitja auðum höndum fram að næsta tímabili því hann er að setja upp körfuboltanámskeið á Blönduósi laugardaginn 26. maí næstkomandi fyrir 12-16 ára krakka frá klukkan 11-14. Námskeiðið er sérstaklega miðað að krökkum sem búa á svæðinu frá Skagaströnd að Hvammstanga.
Ef þetta verkefni gengur vel og vart verður við körfuboltaáhuga á svæðinu hefur Helgi Freyr hug á því að stofna Körfuboltaskóla Norðurlands vestra og ná þannig betur til krakkanna á þessu svæði á breiðara aldursbili með reglulegum æfingum. Þá er hugsunin sú að æfingarnar verði til skiptis í íþróttahúsum Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd til að dreifa ferðakostnaði iðkenda.
,,Þessi hugmynd að reyna að auka áhugann á körfuboltanum á þessu svæði hefur lengi blundað í mér. Ég tel að þetta sé besta hópíþróttin fyrir lítil bæjarfélög þar sem fáa þarf til að geta sett saman lið, og góð lið eins og árangur kvennaflokka á Hvammstanga í gegnum tíðina hafa t.d. sannað. Uppgangur körfunnar á Sauðárkróki í gegnum meistaraflokksliðs Tindastóls síðastliðin ár hefur sýnt mér hvað það getur gefið samfélaginu ótrúlega mikið að hafa eitthvað jákvætt sameiningartákn til að fylkja sér á bak við, svo ekki sé talað um jákvæðar fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar.“
Helgi Freyr segir að langtímamarkmiðið með Körfuboltaskóla Norðurlands vestra, ef hann kemst á laggirnar, sé að tengja krakkana betur saman félagslega milli bæjarfélaga innan svæðisins og vekja hjá þeim áhuga á körfubolta sem getur mögulega skilað þeim í körfuboltaakademíuna í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og þannig halda krökkunum okkar á þessu svæði lengur, svæðinu til hagsbóta.
„Ég lít svo á að lið meistaraflokks Tindastóls í körfu sé lið Norðurlands vestra og í framtíðinni vil ég sjá krakka af þessu svæði koma í það lið í meira mæli.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.