„Héldum ekki okkar plani,“ segir Helgi Rafn um leikinn í gær
Grindvíkingar héldu sigurgöngu sinni áfram í Subway-deildinni í körfubolta og sóttu tvö mikilvæg stig í Skagafjörðinn í gærkvöldi þegar þeir báru sigurorð af lánlitlu Tindastólsliði. Þriðji leikhlutinn reyndist heimamönnum erfiður og kostaði þá sigurinn þegar upp var staðið. Lokatölur 77 - 86.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á forystu eftir smá hökt Stóla í upphafi leiks. Bæði lið reyndu að finna taktinn fyrir sinn leik og finna glufur í ágætum vörnum andstæðinga sinna. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var sem fyrr öflugur í vörn heimamanna en fékk sína aðra villu áður en fyrsti leikhluti var hálfnaður. Það voru ekki góð hlutskipti þar sem liðið þurfti sérstaklega á honum að halda allan leikinn þar sem Helgi Rafn Viggósson lék ekki með vegna smávægilegra meiðsla. Mátti greina að Sigurður beitti sér ekki eins fast í baráttunni það sem eftir lifði leiks.
Staðan var 22 – 20 þegar annar leikhluti hófst en lítt markvert gerðist í þeim leikhluta sem ekki er áður sagt um þann fyrri. Áhorfendur kættust þó þegar Sigtryggur Arnar hitti úr þriggja stiga skoti sínu og kom Stólum í 27:22 og töldu að nú væri maskínan farin í gang. En eitthvert hökt er á henni því Arnar skoraði aðeins 9 stig í leiknum og enn beðið eftir að meistarinn nái fyrra valdi á þriggja stiga vopninu. Grindvíkingar náðu að rétta sinn hlut og unnu þennan leikhluta 19 – 23 og staðan í hálfleik 41:43.
Það hefur verið reynt í langan tíma að kveða þriðjahlutadrauginn niður hjá Tindastól og margir vongóðir um að það hafi tekist. En í tilefni hrekkjavöku var hann dreginn upp úr gröf sinni í gær öllum að óvörum. Lítið gekk hjá heimamönnum í vörn og sókn og lánleysið áþreifanlegt. Leikur gestanna var þróttmikill og atgangur þeirra í teigum beggja vegna vallarins skilaði 27 stigum í þeim leikhluta meðan Stólar náðu að bæta 16 stigum á töfluna sín megin. Munaði þar miklu um Ivan Aurrecoechea Alcolado í liði Grindvíkinga sem átti hvert frákastið af öðru en í heildina náði hann 15 slíkum og gerði 25 stig.
Í lokahlutanum snérist taflið hins vegar við og heimamenn komu virkilega einbeittir til leiks og gerðu harða hríð að Grindvíkingum og söxuðu forskot þeirra jafnt og þétt niður. En allt kom fyrir ekki. Lukkudísir voru ekki með Stólunum að þessu sinni sem þurftu að lúta í lægra haldi fyrir góðu liði Grindavíkur.
Javon Anthony Bess var sem fyrr öflugur í liði Tindastóls og gerði 30 stig en tók aðeins fimm fráköst og Taiwo Hassan Badmus 13 stig og þrjú fráköst.
Í Grindavík var Ivan Aurrecoechea Alcolado óstöðvandi með 25 stig og 15 fráköst en sunnanmenn kafsigldu gestgjafana í þeim samanburði, tóku 50 í heildina meðan Stólar voru rétt rúmlega hálfdrættingar og náðu 29.
„Við eiginlega héldum ekki okar plani, sóttum lítið inn, drævuðum lítið í götin en þegar við gerðum það þá setti Bess nokkra þrista í röð. Hefðum við gert það áfram hefði þetta kannski endað öðruvísi en við alla vega gerðum ekki það sem við ætluðum okkur í þessum leik,“ sagði Helgi Rafn Viggósson í samtali við Feyki í morgun. „Vörnin fékk mikið af auðveldum stigum, þótt hún hafi verið fín á köflum en þriðji hluti var ekki góður.“
Það var áberandi hvað hlutirnir virtust stundum falla gestunum betur og eins og sagt er datt ekki með strákunum í þessum leik og segir Helgi stundum þróast þannig og í raun lítið við því að gera. „Stundum vinnast svona leikir og stundum tapast þeir. Það gerði það ekki í gær. En það er stutt á milli leikja og þýðir ekkert að dvelja lengi við þetta, það er leikur á sunnudaginn á móti Stjörnunni í bikarnum menn verða að rífa sig upp úr þessu. Það er ekkert annað í boði,“ segir Helgi sem hvetur fólk til að fjölmenna í Síkið og vera með læti. „Þetta er bara einn leikur og ef við vinnum hann erum við komnir áfram, þannig að ég hvet fólk til þess að mæta og styðja við bakið á okkur. Þeir eru með hörku lið þannig að þetta verður skemmtilegur leikur.“
Verður þú klár?
„Það á eftir að koma í ljós, það er bara föstudagur í dag.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.