Heillandi leikur og glíma við sjálfan sig

Kristján B. Halldórsson, Rafn Ingi Rafnsson og Jón Þorsteinn Hjartarson eru í opnuviðtali Feykis þessa vikuna og ræða um golfíþróttina og það sem framundan er hjá Golfklúbbi Sauðárkróks. Mynd/BÞ
Kristján B. Halldórsson, Rafn Ingi Rafnsson og Jón Þorsteinn Hjartarson eru í opnuviðtali Feykis þessa vikuna og ræða um golfíþróttina og það sem framundan er hjá Golfklúbbi Sauðárkróks. Mynd/BÞ

Með hækkandi sól fer fiðringur um kylfinga landsins og eftirvæntingin eftir því að komast út á golfvöllinn gerir vart við sig. Þeir Rafn Ingi Rafnsson og Kristján B. Halldórsson hjá Golfklúbbi Sauðárkróks eru þar engin undantekning en blaðamaður Feykis hitti þá félaga á Hlíðarendavelli á Sauðárkróki þegar Jón Þorsteinn Hjartarson golfkennari var að renna í hlað.

„Þetta er mjög heillandi leikur. Það má segja að þetta sé glíma við sjálfan sig og aðstæðurnar sem þú lendir í hverju sinni. Fólk trúir því ekki en það getur verið algjör spennuþriller,“ segir Rafn.

Kristján segir hvern og einn upplifa spennuna á mismunandi hátt. „Fyrir byrjandann getur fyrsta upplifunin verið í fyrsta skiptið sem boltinn fer á flug, svo vindur það smátt og smátt uppá sig. Allt í einu fer þér að finnast púttið rosalega skemmtilegt. Það fer allt eftir því hvar hver og einn er staddur hvað fólki finnst skemmtilegt við golfið. Það að spila í góðu veðri og fallegu umhverfi, eins og er hérna, það er lykilatriði,“ segir Kristján.

„Þetta bítur í rassinn á þér og lætur þig aldrei í friði. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að þú ert bara að keppa við einn keppanda - og það er þú sjálfur,“ segir Jón Þorsteinn 

Félagarnir eru í opnuviðtali Feykis sem kemur út í dag þar sem þeir ræða um golfíþróttina og það sem framundan er hjá Golfklúbbi Sauðárkróks. Klúbburinn hefur um árabil haldið úti öflugu barna- og unglingastarfi og í sumar eru ýmsar spennandi nýjungar fyrirhugaðar, m.a. sex vikna nýliðanámskeið og er vonast til þess að fleiri gangi í klúbbinn. 

Við höfum lagt mikinn metnað í þetta. Þetta er ekkert ókeypis fyrir klúbbinn en þetta er efst á forgangsröðinni vegna þess að við sjáum að það kemur svo margt jákvætt með því. Það eru margir foreldrar sem eru að spila golf í dag sem hefðu aldrei byrjað í golfi ef krakkarnir hefðu ekki verið þarna,“ útskýrir Rafn. Kristján segist hafa fylgst með æfingum krakkana hjá Jóni Þorsteini í fyrra og að hann hafi dauðöfundað krakkana að fá svona flotta kennslu. „Maður hefði vilja vera þarna með. Hann er mjög góður þjálfari.“

Jón Þorsteinn segist hlakka til að fara af stað með fyrirhugað nýliðanámskeið, sem byrjar fimmtudaginn 2. júní. Rafn segir að um nýjung sé að ræða, í stað þess að bjóða uppá stutt tveggja daga námskeið líkt og áður þá verður haldið lengra námskeið, kennt tvisvar í viku í sex vikur. 

„Við erum að bjóða kylfingum að koma í klúbbinn á nýliðagjaldi, sem er mun lægra en fullt árgjald, og þeir fá ókeypis námskeið í kaupbæti. Á námskeiðinu fá nýliðar leiðbeiningar um allar hliðar golfsins.“ Nýliðar fá það oft á tilfinninguna að þeir séu ekki tilbúnir og jafnvel ekki velkomnir á vellina, þeir séu bara fyrir og þess háttar. Við ætlum að eyða þessu því það er ekki svoleiðis,“ segir Rafn ennfremur. „Alls ekki, við viljum endilega fá nýtt fólk inn og það er aldrei of seint að byrja,“ bætir Kristján við. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir