Haukar höfðu betur í Hafnarfirði
Tindastólsmenn heimsóttu Hafnarfjörðinn í gær en bæði lið voru ósigruð eftir síðustu kófpásu. Lið Hauka var engu að síður í fallsæti en hafði unnið KR í síðasta leik og mátti því búast við því að hart yrði barist. Með sigri hefðu Haukar geta gert sér vonir um að halda sæti sínu í deildinni en Stólarnir bætt stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og jafnað KR og Val að stigum. Leikurinn var hnífjafn og spennandi en á endanum voru það heimamenn í Haukum sem hirtu stigin tvö, sigruðu 93-91.
Haukarnir byrjuðu leikinn vel og komust snemma í tíu stiga forystu, 16-6, og Baldur tók leikhlé. Það skilaði ljómandi árangri því tæpum tveimur mínútum síðar voru Stólarnir komnir yfir, 18-19, eftir körfur frá Jaka, Pétri og Nick. Strákarnir voru svo þremur stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, 22-25, eftir þrist frá Nesa. Jaka bætti stöðuna fyrir Stóla í byrjun annars leikhluta en þá tóku Haukar leikinn yfir og breyttu stöðunni úr 22-27 í 41-31 á tæpum fimm mínútum, semsagt 19-4 kafli. Körfur frá Jaka, Flenard og Nick komu Stólunum inn í leikinn á ný og í hálfleik var staðan 51-47 fyrir Hauka.
Það var rétt í byrjun þriðja leikhluta sem Haukar náðu að auka bilið en síðasta stundarfjórðunginn var forskot þeirr yfirleitt eitt til fimm stig. Nick kom Stólunum einu stigi yfir, 63-64, þegar tólf og hálf mínúta var til leiksloka og Pétur kom sínum mönnum yfir 70-71 snemma í fjórða leikhluta en þetta reyndist skammgóður vermir því Haukar svöruðu með góðum köflum. Lokamínúturnar voru æsispennandi en heimamenn létu forystuna ekki af hendi, nældu sér í tvö stig og sendu Njarðvík niður í botnsætið.með hjálp Hattar.
Sannarlega vonbrigði að tapa þessum leik en Haukar eru hreinlega allt annað lið eftir kófpásu en fyrir hana. Nick Tomsick var öflugastu í liði Tindastóls, gerði 31 stig og átti níu stoðsendingar. Jaka Brodnik gerði 23 og Flenard Whitfield var með 14 stig og átta fráköst. Best gekk Stólunum þegar Axel Kára var á gólfinu (+12) en verst gekk þegar Antanas Udras var inn á (-13) en Anta átti dapran leik í gær, gerði fimm stig á 28 míinútum.
Í viðtali við Vísi.is eftir leik lét Baldur þjálfari í ljós óánægju með hversu lítið væri dæmt á andstæðinga Stólanna þegar brotið væri á stóru mönnunum í liði Tindastóls og er ógleði Baldurs skiljanleg því a.m.k. annan leikinn í röð er lið Stólanna ekki hálfdrættingur á við andstæðingana þegar kemur að áunnum vítaskotum. Haukar fengu 26 í gær en Stólarnir 11 og svipað var uppi á teningnum gegn Þórsurum sl. sunnudag. Baldur er því væntanlega á sama máli og áhorfandinn í Síkinu sem vill að dæmt sé eins báðum megin!
Tindastólsmenn þurfa ekki að eyða miklum tíma í að gráta Björn bónda því á sunnudag mæta Keflvíkingar í Síkið – það væti nú gaman að vinna þá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.