Grátlegar lokamínútur og Stólarnir komnir í frí
Keflvíkingar sendu Tindastólsmenn í sumarfrí í dag þegar þeir unnu þriðja leikinn í einvígi liðanna og sópuðu Stólunum þar með út úr Sláturhúsinu og alla leið norður í Skagafjörð í sumarfrí. Enn og aftur mætti segja að lið Tindastóls hafi fallið um sjálft sig; var sex stigum yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir en lokasóknir liðsins voru grátlegar þar sem liðið tapaði boltanum fjórum sinnum á síðustu tveimur mínútum leiksins og missti heimamenn fram úr. Tímabilið í hnotskurn – eins og einn höfðinginn orðaði það. Lokatölur 87-83 fyrir Keflavík.
Lið Tindastóls sýndi engu að síður góða frammistöðu lengstum í leiknum og fóru vel af stað, komust í 0-6 en heimamenn höfðu náð að jafna, 12-12, um miðjan fyrsta leikhluta. Keflvíkingar voru síðan með fimm stiga forystu, 23-18, þegar annar leikhluti hófst en þá bitu Tindastólsmenn rækilega frá sér. Þeir höfðu jafnað um leikhlutann miðjan og áttu góðan sprett fyrir hlé og voru yfir, 36-43, í hálfleik.
Það var boðið upp í dans í þriðja leikhluta og bæði lið sjóðheit. Keflvíkingar minnkuðu muninn í eitt stig en Stólarnir gáfu ekkert eftir og voru í raun yfir allan síðari hálfleik – ef undan er skilin síðasta og mikilvægasta mínútan í leiknum.
Staðan var 62-65 að loknum þriðja leikhluta og líkt og í síðasta leik liðanna henti Viðar í þrist í upphafi fjórða leikhluta. Stólarnir voru næstu mínútur með þetta þriggja til sex stiga forystu og þegar fimm mínútur voru eftir setti Pétur þrist og staðan 71-78. Deane Williams minnkaði muninn en Tomsick kom muninum í átta stig með þristi, 73-81, og rúmar fjórar mínútur til leiksloka. Þá botnfraus sóknarleikur gestanna eins og stundum áður. Keflvíkingar minnkuðu muninn en Brodnik kom muninum í sex stig á ný, 77-83, þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Fleiri stig gerðu leikmenn Tindastóls ekki í leiknum.
Á síðustu tveimur mínútum leiksins missti Tomsick boltann þrisvar sinnum og Pétur einu sinni og Keflvíkingar náðu þremur sóknarfráköstum! Calvin Burks Jr. kom heimamönnum yfir þegar hálf mínúta var eftir, 85-83, Pétur náði síðan sóknarfrákasti eftir misheppnað skot frá Brodnik en Tomsick skrefaði síðan þegar sex sekúndur voru eftir og Stólarnir misstu boltann. Þeir brutu síðan strax á Milka sem kláraði leikinn með tveimur vítum.
Tindastóll spilaði fína vörn í dag og sóknarleikur liðsins var betri en í fyrri leikjum í seríunni. Brodnik var stigahæstur með 23 stig og Whitfield var með 20 stig og 15 fráköst. Tomsick skilaði sömuleiðis 20 stigum. Lið Tindastóls tók 46 fráköst gegn 32 heimamanna og hjá Keflvíkingum voru aðeins fimm leikmenn sem gerðu stig. Þannig að margt gekk upp hjá liði gestanna eða alveg þar til tvær mínútur voru eftir.
„Þetta er bara vonbrigði, erfitt tímabil og við náðum aldrei að búa til neinn ryþma. Eins og núna gegn Keflavík, spilum 50/50 leik þrisvar í röð. Við getum spilað við alla, við erum með lið sem á að geta unnið alla en við erum ekki að ná í sigra og erum ekki að ná að klára leikina. Það kannski súmmerar tímabilið upp,“ svaraði svekktur Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, í viðtali við Vísi.is þegar hann var spurður um mat á tímabili Stólanna í vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.