Golfkennsla á Blönduósi
Golfkennarinn þekkti, John Garner sem heimsótti golfklúbbana á Blönduósi og Sauðárkróki í fyrra og kenndi íþróttina, er nú væntanlegur aftur á Blönduós þar sem hann mun bjóða upp á kennslu í golfi fyrir börn frá 10 ára aldri. Fyrsti kennsludagur verður sunnudagurinn 3. júní en í framhaldi af því kemur hann á þriggja vikna fresti. Æfingatímar með leiðbeinanda verða tvisvar í viku. Sumarnámskeið fyrir börn og unglinga kostar 7.500 krónur. Fyrsti tíminn er ókeypis og geta allir sem áhuga hafa komið og prófað. Golfklúbburinn i lánar kylfur.
Líka verður boðið upp á kennslu fyrir fullorðna nýliða, einkatíma, paratíma og hóptíma. Tilvalið er fyrir nokkra nýliða að taka sig saman og prófa þessa frábæru íþrótt.
Verð fyrir kennslu er sem hér segir:
Einkatímar – 8.000 kr. Innifalið í gjaldinu er 30 mínútna kennsla ásamt myndbandsgreiningu og leiðsögn.
Paratímar – 6.000 kr. á mann. Innifalið í gjaldinu er kennsla í 60 mínútur.
Hóptímar (6 - 8 í hóp) – 5.000 kr. á mann. Innifalið í gjaldinu er kennsla í 90 mínútur.
Frekari tímasetningar verða auglýstar þegar skráningu er lokið.
Skráning og frekari upplýsingar eru hjá Jóhönnu á netfangið jgjon@mi.is eða í síma 864 4846. Skráningu lýkur í dag, mánudaginn 28. maí.
Ennfremur verður boðið upp á golfleikjanámskeið fyrir 6 – 10 ára börn. Leiðbeinandi verður Jóhanna G. Jónasdóttir. Frekari upplýsingar verða auglýstar síðar.
Garner er fyrrum atvinnumaður í golfi og á ferli sínum vann hann eitt mót á Evróputúrnum (British Match Play Champion 1972) og síðan á Evróputúr öldunga (Senior Tournament Champions of Champions 1999). Hann tók þátt í Ryder Cup keppninni árin 1971 og 1973 fyrir hönd Evrópu. Einn besti árangur Garners var árið 1974 þegar hann lenti í 11. sæti á Opna breska meistaramótinu en það ár vann Gary Player mótið í þriðja skiptið.
Garner hefur verið landsliðsþjálfari í gegnum tíðina og var til að mynda fyrsti landsliðsþjálfari Írlands árið 1983 þar sem hann þjálfaði Darren Clarke PGA atvinnukylfing sem vann Opna breska árið 2011. Garner þjálfaði íslenska landsliðið í golfi frá árunum 1989-1996.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.