Getulausir Stólar á Dalvík

Strákarnir í Tindastól skelltu sér yfir á Dalvík í gær þar sem heimamenn í Dalvík/Reyni tóku á móti þeim í fimmtu umferð þriðju deildarinnar. Dallasmenn skoruðu þrjú mörk í leiknum en Stólastrákar núll. Tindastóll er á botni þriðju deildarinnar með eitt stig en Dalvík í því fjórða með átta stig. 

Liðsmenn Dalvík/Reynir voru betri aðilinn allan leikinn, sérstaklega framan af leik. Tindastólsdrengir áttu í mestum erfiðleikum með að tengja saman sendingar og voru því heimamenn mun meira með boltann í fyrri hálfleik. Pressa stólanna var lítil sem engin og fengu heimamenn í Dalvík hvert færið á fætur öðru, og hverja hornspyrnuna og aukaspyrnuna. Það var síðan á 42. mínútu, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, að Dalvík/Reynir fékk aukaspyrnu úti á hægri væng, aðeins fyrir utan teig. Jón Heiðar Magnússon, vinstri bakvörður heimamanna lét vaða á markið úr spyrnunni, lágan bolta en fastann, sem Atli Dagur misreiknaði og boltinn lá í netinu. Staðan í hálfleik var því 1:0 fyrir heimamönnum í Dalvík, en forysta heimamanna hefði hæglega geta verið meiri. 

Dalvík/Reynir voru betri aðilinn áfram í byrjun seinni hálfleiks og á 51. mínútu skoraði Gunnar Örvar Stefánsson fyrir heimamenn og staðan orðin 2:0. Þá loksins vöknuðu Stólarnir og fóru að sækja, áttu nokkur hálf færi  en besta færið var sennilega þegar að Arnar Ólafs skallaði boltann rétt fram hjá eftir fyrirgjöf frá Hólmari Daða. Allt kom fyrir ekki og stólunum tókst ekki að minnka muninn. Dalvík/Reyni tókst hins vegar að auka muninn 90 mínútu þegar að Kristján Freyr Óðinsson skoraði með snyrtilegu skoti, 3:0 fyrir heimamönnum og þannig urður lokatölur leiksins. 

Það er ljóst að Stólarnir þurfa að bæta leik sinn til muna ef þeir ætla að eiga mannsæmandi tímabil í sumar í 3. deildinni. Þeir þurfa að fá meira út úr spánverjunum tveimur og Pape Mamadou Faye þarf betri þjónustu fremst á vellinum. Feykir er þó bjartsýnn á að Stólarnir rífi sig í gang, en þeir mæta næst ÍH úr Hafnafirði í heimaleik á Króknum laugardaginn 12. júní. 

/SMH


 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir