Gestrisnin í fyrirrúmi hjá Tindastólsmönnum

Pape í baráttunni í dag en komst lítt áleiðis gegn baráttuglöðum Garðbæingum. MYND: ÓAB
Pape í baráttunni í dag en komst lítt áleiðis gegn baráttuglöðum Garðbæingum. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og KFG mættust á Sauðárkróksvelli í dag í 3. deildinni. Lið Tindastóls er nú í bullandi fallbaráttu og það var því skarð fyrir skildi að nokkra sterka leikmenn vantaði í hópinn í dag. Heimamenn grófu sér sína eigin gröf með því að gefa þrjú mörk á sjö mínútna kafla í upphafi leiks og þrátt fyrir að spila á löngum köflum ágætan fótbolta voru Tindastólsmenn aldrei líklegir til að krafsa sig upp. Lokatölur 1–4 fyrir Garðbæinga.

Leikið var við fínar aðstæður á Króknum, smá sunnanvindur en annars þurrt og um 20 stiga hiti. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Stólarnir mölbrotnuðu eftir að hafa fengið fyrsta markið á sig – mátti halda að vörnin hefði öll sofið yfir sig en vaknað upp við vondan draum eftir tuttugu mínútna leik. Fyrsta markið kom eftir tíu mínútur en þá misreiknaði Ísak langa sendingu fram, leifði boltanum að skoppa og Jóhann Jóhannsson komst einn í gegn og þrumaði yfir Atla í markinu. Hann endurtók leikinn þremur mínútum síðar og á 17. mínútu löbbuðu leikmenn KFG í gegnum vörn Tindastóls og Birgir Helgason gerði þriðja markið af öryggi. Nú var það ekki svo að lið KFG hefði öll völd á vellinum en þegar þeir sóttu hratt og af krafti þá stóð eiginlega ekki steinn yfir steini í liði Tindastóls. Stólarnir hefðu getað lagað stöðuna fyrir hálfleik en Raul Jorda fékk þrjú dauðafæri eftir ágætar sóknir Tindastóls en náði að láta Hrannar Heiðdal í marki KFG líta út fyrir að vera ofurmenni með því að negla ítrekað í hann. Staðan því 0-3 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var jafn en Stólarnir reyndu að minnka muninn en gestirnir gátu leyft sér að spila öruggt, enda með góða forystu. Það var því fátt um marktækifæri framan af. Smám saman náðu heimamenn þó að koma sér í betri stöður með því að nýta kantana betur og Halldór Broddi náði að minnka muninn með marki á 70. mínútu eftir klafs í teignum. Þegar á leið urðu Stólarnir að taka meiri áhættu og bæði lið náðu að ógna. Það voru hins vegar gestirnir sem gerðu síðasta mark leiksins á 85. mínútu en þá fékk Guðjón Scheving laglega sendingu inn á teig Tindastóls og renndi boltanum framhjá Atla og í markið.

Í sjálfu sér ágætur fótboltaleikur á að horfa en hörmulegt fyrir Stólana að vera búnir að gefa leikinn frá sér eftir 17 mínútur. Liðið lék á köflum ágætan fótbolta en nýtti illa færin. Francisco Sanjuan sýndi oft skemmtilega takta og minnti stundum á Benna. Ekki var hægt að kvarta yfir því að leikmenn legðu sig ekki fram en því miður skilaði það engu í dag. Liðið var sem fyrr segir án Konna, fyrirliðans og leikstjórnanda liðsins, og það var eins og leikmenn væru eitthvað litlir í sér í byrjun leiks. Þá var Hólmar Daði í banni og Jóhann Daði og Juan Carlos fjarri góðu gamni svo ekki sé nú talað um gamla gengið.

Lið Tindastóls og Einherja deila nú botnsætum 3. deildar, eru bæði með tíu stig, en lið Einherja vann í morgun KFS úr Eyjum á Vopnafirði. Lið Víðis, KFS og ÍH eru svo sem ekki langt undan í fallbaráttunni en það er morgunljóst að lið Tindastóls þarf að fara safna stigum ef ekki á illa að fara.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir