Gervigras í stað fjölnota húss
Við brotthvarf litla íþróttasalarins við gamla barnaskólann á Sauðárkróki hefur aðsókn í íþróttahúsið aukist svo um munar að það annar ekki eftirspurn eftir tímum í húsinu. Vegna þess sem og hvernig vetraræfingastaða íþróttafólks er háttað í dag ákvað byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar að beina því til sviðstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að hafin verði hönnun og kostnaðarmat þess að setja gervigras á norðurhluta æfingasvæðis við íþróttavöllinn á Sauðárkróki.
Byggðarráð leggur áherslu á að þessum framkvæmdum verði flýtt sem kostur er enda þörfin fyrir úrbætur á íþróttaaðstöðu brýn, eins og stendur í fundargerð ráðsins. Þá var samþykkt að fjármunir þeir sem áttu að fara í fjölnota íþróttahús í fjárfestingaáætlun ársins 2016 verði fluttir til þessa verkefnis.
„Í mörg ár hefur barátta fyrir bættri aðstöðu knattspyrnuiðkenda verið eitt stærsta verkefni knattspyrnudeildar Tindastóls. Allir vita að sú aðstaða sem hefur verið í boði er langt frá því að teljast viðunandi og knýjandi þörf fyrir úrbótum hefur verið og er. Það er okkur því mikið fagnaðarefni að loks hafi eftirfarandi bókun verið gerð í Byggðaráði Skagafjarðar þann 29.sept. sl. og treystum við á og trúum að nú verði þessi draumur okkar að veruleika innan tíðar. Tilkoma gervigrasvallar mun gjörbreyta okkar umhverfi og um leið gefa okkar iðkendum tækifæri til að æfa við viðunandi aðstæður,“ segir á Fésbókarsíðu stuðningsmanna Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.