Fyrsti sigur Tindastóls í höfn
Lið Tindastóls og Vestra frá Ísafirði mættust á Sauðárkróksvelli í dag í ljómandi fótboltaveðri, 15 stiga hita og stilltu. Lið Tindastóls barðist fyrir öllu sínu í dag og uppskáru góðan sigur en það var Fannar Kolbeins sem gerði bæði mörk Stólanna og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Lokatölur 2-0.
Stólarnir byrjuðu leikinn vel og fyrirliðinn Óskar Smári fékk að njóta sín á vinstri kantinum. Eftir lipra sókn Stólanna var það einmitt Óskar sem átti frábæra sendingu fyrir markið á sjöttu mínútu, eftir nett spil, og þar var varnarjaxlinn Fannar Kolbeins einhverra hluta mættur og hann skallaði boltann laglega í fjærhornið yfir Daða Frey Arnarsson í marki Vestra. Rétt um fimm mínútum síðar tognaði Óskar Smári að því er virtist illa og fékk rúnt með sjúkrabíl upp á spítala og kom ekki meira við sögu. Eftir þetta reyndu gestirnir að ná jöfnunarmarki en Stólarnir voru einbeittir og duglegir og baráttan til mikillar fyrirmyndar. Það var rétt undir lok fyrri hálfleiks sem þeir náðu að skapa sér tvö færi en hittu ekki markið.
Áfram héldu gestirnir, undir stjórn fyrrum Stólanna Bjarna Jó og Chris Harrington, að pressa í upphafi síðari hálfleiks en Stólarnir beittu skyndisóknum. Stefan Lamanna komst í ágætt færi eftir eina slíka snemma í síðari hálfleik en leikmenn Vestra björguðu í horn. Boltinn var sendur fyrir á fjærstöng og þar var Fannar öflugur og skallaði boltann út við stöng og í markið og staðan orðin 2-0. Kannski nokkuð gegn gangi leiksins en nú var ljóst að Stólarnir voru komnir í góðan séns með að ná í fyrstu stig sín í sumar. Þeir bökkuðu talsvert eftir þetta og Ísfirðingar hlóðu mannskap í sóknina en þeim gekk sem fyrr illa að skapa sér góð færi. Í kringum 65. mínútu voru þeir nálægt því að minnka muninn þegar boltinn hrökk í stöngina á marki Tindastóls, eftir ævíntýraspark utarlega úr teignum, og síðan fyrir markið en Santiago Fernandez í marki Stólanna varð fyrstur til að átta sig og náði boltanum. Nú féllu Stólarnir djúpt en vörnin hélt og ef Vestrar sáu í markið var oftast kominn Stólafótur fyrir skot þeirra og lukkudísirnar léku við heimamenn í nokkur skipti.
Með alla þessa menn framarlega á vellinum var hætta á að Stólarnir næðu að stríða gestunum með skyndisóknum og á síðasta stundarfjórðungnum fóru heimamenn illa með 2-3 sóknir sem hefðu með smá heppni skilað marki. Mörkin urðu hinsvegar ekki fleirir og Stólarnir fögnuðu sætum og mikilvægum sigri og þremur stigum í hús.
Það er ljóst að lið Tindastóls er ekki best skipaða liðið í 2. deildinni í sumar. Í dag var baráttan til fyrirmyndar og það má komast ansi langt á baráttu, dugnaði og góðu skipulagi. Þrátt fyrir erfitt gengi framan af sumri þá er það jákvætt að það búa mörk í liðinu en það hefur á að skipa Benna og Lamanna sem báðir eru snöggir og liprir. Þá var varnarleikurinn góður í dag þar sem reynsluboltarnir Bjarki Árna og Fannar Kolbeins voru í essinu sínu með Arnór Daða og Hólmar Daða í baráttuhug í bakvarðarstöðunum.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Hetti á Egilsstöðum á miðvikudaginn en Höttur er líkt og Tindastóll með þrjú stig en hefur leikið einum leik minna. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.