Frisbígolfvöllur vígður í blíðviðri á Blönduósi

Vígslugestir láta reyna á færni sína í Frisbígolfi eða svokölluðu folfi. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL
Vígslugestir láta reyna á færni sína í Frisbígolfi eða svokölluðu folfi. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL

Glæsilegur frisbígolfvöllur var formlega vígður í Fagrahvammi á Blönduósi í gær. Fulltrúar frá Frisbígolfþjónustu Akureyrar komu og kynntu íþróttina, helstu grunnatriði, köst og leikreglur. Á heimasíðu Blönduóss segir að frisbígolf sé frábær útivera og tilvalin fjölskylduskemmtun. Það eina sem þarf að gera er að mæta með frisbídiska og hefja leik. Frisbígolfvöllurinn verður opinn allt árið um kring.

Sveitarfélagið Blönduós gerðist aðili að samning um heilsueflandi samfélag en markmiðið með því er að hafa heilsu íbúa í fyrirrúmi í öllum málaflokkum og er uppsetning frisbígolfvallar eitt skref í þeirri vinnu.

Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Reynt er að klára hverja holu/körfu í sem fæstum köstum og er folfdisknum kastað frá teigsvæði í átt að skotmarki sem er „holan“. Oftast er um að ræða körfur en holurnar geta verið mismunandi. Frisbígolfvelli má nú finna víðsvegar um landið, meðal annars við Litlaskóg á Sauðárkróki. Nánar má kynna sér leikinn á heimasíðu Íslenska frisbígolfsambandsins > www.folf.is

Feykir fékk myndir sendar frá Róberti Daníel Jónssyni sem teknar voru við vígslu vallarins í gær. Eins og sjá má ber Fagrihvammur nafn með rentu en hann er ofan við austurbakka Blöndu og norðan brúarinnar – eins og sjá má á myndunum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir