Frábær lið og fallegir dómarar í Síkinu í kvöld

Áfram heldur körfuboltinn að skoppa og í kvöld er sannkallaður stórleikur í Síkinu því þá mæta Keflvíkingar í heimsókn. Subway-deildin er jöfn og skemmtileg og aðeins Íslandsmeistarar Vals sem virðast vart tapa leik. Lið Keflavíkur er í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig að loknum ellefu leikjum en Stólarnir eru með 12 stig í sjöunda sæti og hafa ekki alveg fundið taktinn það sem af er móti en meiðsli og veikindi hafa sett strik í reikninginn hjá okkar mönnum.

Sú lexía lærðist hins vegar í vor að sígandi lukka er best og lykilatriði að byrja á því að tryggja sætið í úrslitakeppninni.

Ekki er annað vitað en að allir klárar Tindastóls séu klárir í slaginn. Baráttan hefst kl. 20:15 og þá er ekki verra að vera búin/n að ná sér í vítamín – grillheitan hammara og munnskol! Dagur formaður hvetur stuðningsmenn Tindastóls til að fjölmenna í Síkið og taka á því með sínum mönnum.

Munum að bera virðingu fyrir störfum dómara leiksins – þeir eru alltaf fallegir í Síkinu – og einbeitum okkur að því að hvetja okkar lið. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir