Fótboltinn flautaður af
Fótboltakempur máttu loks lúta í gras fyrir kórónuveirufaraldrinum en Knattspyrnusamband Íslands ákvað á föstudaginn, í kjölfar hertra aðgerða í baráttunni við COVID-19, að nú væri nóg komið og augljóst að ekki væri raunhæfur möguleiki lengur á að klára knattspyrnutímabilið.
Staðan í deildunum var því látin standa. Það var auðvitað löngu ljóst að Stólastúlkur voru búnar að tryggja sér sigur í Lengjudeild kvenna og sæti í efstu deild að ári. Tindastóll hafði fengið heimild frá KSÍ til að spila lokaleik sinn í deildinni gegn liði Völsungs frá Húsavík og taka á móti bikarnum að honum loknum – en Húsvíkingar (ekki Þingeyingar, blikk-blikk) sögðu liðið sitt komið í frí og vildu ekki spila strax. Sérstök framkoma.
Karlalið Tindastóls var nú sennilega heppið að þurfa ekki að spila síðustu tvær umferðirnar í deildinni því liðið hafði sogast niður í fallbaráttu en endar í sjöunda sæti í 12 liða deild. Stefnan hafði verið sett á toppbaráttuna og sæti í 2. deild en Reynir Sandgerði og KV náðu fljótt góðri forystu í deildinni. Stólarnir stóðu ágætlega í efri hluta deildarinnar þegar fyrri COVID-pásan skall á en liðið náði sér aldrei á strik að henni lokinni.
Í Pepsi Max deild karla er lið Vals Íslandsmeistari en Í Pepsi Max deild kvenna varð Breiðablik Íslandsmeistari og átti það skilið. Í liði Blika er Stólastúlkan Vigdís Edda Friðriksdóttir sem gekk til liðs við Kópavogsliðið síðasta vetur. Hún er því orðin Íslandsmeistari með Blikum og óskar Feykir henni til hamingju með titilinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.