Fótboltinn byrjar á ný í dag

Donni kampakátur að loknum sigurleik í sumar. MYND: ÓAB
Donni kampakátur að loknum sigurleik í sumar. MYND: ÓAB

Feykir sagði frá því í gær að Murielle Tiernan og Hannah Cade hefðu samið við lið Tindastóls fyrir komandi tímabil. Það var því ekki úr vegi að spyrja Donna þjálfara út í næstu skref og hvort hann væri ekki ánægður með ráðahaginn. „Það er alveg stórkostlegt að Hannah og Murielle hafi skrifað undir áframhaldandi samning auk þess sem Melissa [Garcia] var með tveggja ára samning og kemur aftur,“ sagði Donni.

„Murielle hefur fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og magnað að hún sé klár i slaginn. Hannah var okkar besti leikmaður síðasta tímabils og átti þátt í ansi mörgum mörkum auk þess að vera frábær varnarlega fyrir liðið. Melissa kom inn um mitt sumar og skoraði mjög mikilvæg mörk fyrir okkur og sinnti sínu hlutverki frábærlega. Allir eru þessir leikmenn frábærir liðsfélagar og gera alla betri i kringum sig.“

Er útséð með að Amber Michel verði áfram í markinu? „Amber er mjög ólíkleg aftur til okkar, því miður, en við eigum frábæran ungan markmann i Möggu og hún fær núna tækifæri til að sanna sig i vetur. Við munum alltaf fá inn markmann og svo er það bara samkeppni þá þeirra á milli.“

Hver er staðan varðandi leikmannamál fyrir komandi tímabil? „Við vonumst til að halda sama kjarna síðan i fyrra og síðan bæta aðeins við það. Við erum jú í úrvalsdeild og ætlum okkur að bæta besta árangur frá upphafi og helst að koma mögulega öðrum á óvart. Við höfum gert samning við David Romay sem markmannsþjálfara bæði karla- og kvennaliðanna sem og yngri flokka. David verður aðstoðarþjálfari hjá kvennaliðinu og einnig i teyminu hjá karlaliðinu. David er frá Bandaríkjunum og hefur flotta reynslu þaðan og frá Wales. Mjög metnaðarfullur einstaklingur sem við væntum mikils af og hann mun koma til okkar i janúar.“

Og boltinn er byrjaður að rúlla því í dag hefst Kjarnafæðimótið á leik Stólastúlkna við Þór/KA. „Það mót verður svo áfram i janúar en í febrúar tekur Lengjubikarinn við. Við byrjuðum að æfa saman, karlar og konur, i lok október og allir hafa æft mjög vel og gengið vel. Mikið af ungum leikmönnum eru að leggja mikið á sér og það verður gaman að fylgjast áfram með þeirra þróun,“ segir Donni að lokum.

Þess má geta að Murr, Hannah og Melissa eru væntanlegar á Krókinn í febrúar og mögulega fleiri leikmenn. Á morgun, laugardaginn 17. desember, spila Tindastólsmenn við lið KA í Kjarnafæðimótinu. Leikið er í Boganum á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir