„Förum fullir sjálfstrausts og tilhlökkunar inn í sumarið“
Lið Kormáks Hvatar spilaði fyrsta leikinn í D-riðli 4. deildar um liðna helgi en þá mættu þeir liði Léttra á Hertz-vellinum í Breiðholtinu. Áður en keppni hófst sendi Feykir nokkrar spurningar á Ingva Rafn Ingvarsson sem tók við þjálfun liðsins nú á vordögum eftir smá sviptingar á þjálfaramarkaðnum.
Ingvi Rafn er uppalinn á Króknum, fæddur 1994, en með fínar tengingar vestur yfir Þverárfjallið. Hann hóf meistaraflokksferilinn með liði Drangeyjar, sem var þá nokkurs konar b-lið Tindastóls, en skipti sumarið 2013 yfir í lið Kormáks Hvatar og hefur leikið þar síðan ef frá eru skildir tveir leikir með Stólunum sumarið 2014. Ingvi Rafn hefur spilað 112 leiki og skorað í þeim 65 mörk.
Hvernig leggst það í þig að taka við liði Kormáks Hvatar? „Það leggst mjög vel í mig og er ég spenntur að takast á við nýtt hlutverk í liðinu. Leikmannahópurinn lítur vel út og hef ég fulla trú á liðið geri vel í sumar. Ég verð þó ekki einn í þjálfarateyminu en Akil DeFreitas verður einnig spilandi þjálfari. Þá hafa reynslumiklir menn sem hafa séð þetta allt áður boðið fram krafta sína og verða þeir hluti af teyminu okkar. Tel ég það mikilvægt í ljósi þess að báðir þjálfarar liðsins eru spilandi.“
Hver er stefnan fyrir sumarið? „Við förum fullir sjáfstrausts og tilhlökkunar inn í sumarið. Markmið liðsins er frekar skýrt en stefnan er sett á að enda í öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Mér sýnist á gamla góða pappírnum að við séum í riðli með sterkum liðum þannig að spilamennskan í sumar verður að vera góð svo markmið náist. Vona ég að þetta verði sumarið sem við tökum skrefið lengra og leyfum stuðningsmönnum Kormáks/Hvatar að dreyma um 3. deild að ári.“
Hvernig standa leikmannamál hjá Kormáki Hvöt. Er enn verið að safna í lið eða er hópurinn fullskipaður? „Leikmannahópurinn er að taka á sig mynd og lýst mér vel á liðið sem við teflum fram í sumar. Undanfarnar vikur höfum við verið að setja saman lið sem við teljum að geti náð í jákvæð úrslit í bland við að spila skemmtilegan fótbolta. Við höfum misst nokkra leikmenn en við höldum stórum kjarna frá síðasta ári. Þá hafa nýir leikmenn séð ljósið og gengið til við liðs við okkur og munu þeir án efa styrkja liðið mikið. Líkt og undanfarin ár höfum við leitað að liðsstyrk til Spánar og koma fjórir leikmenn þaðan. Yepes (markvörður), Acai (varnarmaður), Jose (miðjumaður) og George (sóknarmaður). Einnig fáum við fyrrnefndan Akil DeFreitas frá Trinidad & Tobago en hann hefur áður spilað á Íslandi. Að auki höfum við fengið franskan bakvörð, Bouna Dieye. Reynsluboltinn Bjarki Már Árnason er mættur aftur eftir að villst aðeins inn í Eyjafjörð í vetur. Þá hefur Ólafur Þór Sveinbjörsson snúið til baka frá Ægi Þorlákshöfn. Það má því segja að hópurinn sé að verða fullskipaður. Það er þó aldrei að vita nema fleiri leikmenn bætist við öflugt lið okkar áður en leikmannamarkaðurinn lokast, þar sem að blekið í pennanum hjá Lee Ann eiganda Kormáks/Hvatar þornar seint,“ segir Ingvi Rafn að lokum.
Það fór reyndar svo að tveir leikmenn bættust í hópinn áður en leikmannaglugginn lokaði. Það voru þeir Alfreð Már Hjaltalín, sem hefur leikið í efstu deild með ÍBV og Víkingi Ólafsvík, og loks Edvard Börkur Óttharsson sem tekur fram á skóna á ný eftir að hafa spilað áður með liði Tindastóls og Leiknis Reykjavík.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.