Formannsskipti hjá knattspyrnudeild Tindastóls

Sunna Björk Atladóttir hefur tekið við sem formaður knattspyrnudeildar Tindastóls eftir að Sigurður Halldórsson baðst lausnar á fundi deildarinnar í gær. Sigurður mun samt sem áður verða viðloðandi fótboltann áfram þar sem hann mun færa sig yfir í meistararáð karla.

„Mér líst bara vel á þetta. Í stjórninni er frábært fólk sem vinnur vel saman og hefur verið mjög samstíga í því sem við höfum verið að gera undanfarið og höldum því bara áfram,“ sagði Sunna í samtali við Feyki í morgun.

Framundan eru spennandi tímar í fótboltanum bæði karla- og kvennamegin og er áætlað að halda þau tvö stórmót sem Tindastóll hefur boðið upp á í yngri boltanum , Steinullarmótið, sem ætlað er stelpum, seinustu helgina í júní og Króksmót, ætlað strákum, aðra helgina í ágúst. „Það er mjög góð skráning á Steinullarmótið, eitthvað um hundrað lið. Við vonum bara að sóttvarnareglur verði ekki þrengdar og leyfi þetta mót,“ sagði Sunna Björk full tilhlökkunar fyrir skemmtilegu fótboltasumri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir