Fjalirnar fundnar og Þórsurum pakkað saman
Það virðist sem Tindastólsliðið hafi bæðið fundið sparifötin og fjalirnar góðu í nýafstaðinni kófpásu því spútnikliði Akureyringa var sökt með dúki og disk í glimrandi körfuboltaveislu í Síkinu í kvöld. Leikmenn Tindastóls höfðu fram að þessu ekki unnið leik sannfærandi í vetur, endalaust strögl og andleysi að hrjá liðið, en það var annar og betri bragur á liðinu í kvöld því þó svo að Pétur og Tomsick hafi staðið upp úr þá voru allir að skila sínu. Gamli góði liðsbragurinn virtist hafa dúkkað upp á ný. Lokatölur? Jú, 117–65!
Lið Þórs hafði gert sér lítið fyrir og unnið fimm síðustu leiki sína í Dominosdeildinni og hreinlega verið magnað að fylgjast með ævintýri Akureyringa. Það ríkti því kannski ekki sérstök bjartsýni hjá stuðningsmönnum Stólanna fyrir leikinn þó svo að upplitið á leikmönnum heimamanna hafi tekið stakkaskiptum eftir að Flenard Whitfield mætti á svæðið og Glover var sendur heim.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með en það var hughreystandi að sjá Pétur setja niður þrist á upphafsmínútunum en eyðimerkurganga hans utan 3ja stiga línunnar hefur ekki farið fram hjá mörgum upp á síðkastið – þrjú niður í 33 tilraunum í síðustu átta leikjum er auðvitað ekki eðlilegt á þeim bæ. Pétur átti svo fínan kafla undir lok fyrsta leikhluta og staðan 21-16 að honum loknum. Þristar frá Tomsick, Viðari og Hannesi, auk troðslu frá Anta, á fyrstu mínútum annars leikhluta gáfu tóninn að því sem koma skyldi og Stólarnir fljótlega komnir með tíu stiga forystu. Varnarleysi Þórsara var síðan algjört á lokakafla leikhlutans en þá náðu Stólarnir 12-2 kafla sem lauk með flautuþristi Péturs sem hafði þá sett niður fjóra þrista í fjórum tilraunum. Staðan 55-32 í hálfleik.
Veisla Stólanna hélt áfram í þriðja leikhluta en það væri synd að segja að gestirnir hafi verið einhver fyrirstaða. Leikmenn Tindastóls fengu að gera nánast það sem þá langaði til, spiluðu glimrandi körfubolta bæði í vörn og sókn, og hittu eins og enginn væri morgundagurinn. Eftir að hafa unnið annan leikhluta 34-16 endaði sá þriðji 37-18 og Þórsarar virtust ekki geta beðið eftir að komast heim í bólið. Fjórði leikhluti var forgangsatriði, munurinn 42 stig þegar þar var komið sögu, og enn bættu Stólarnir í.
Það voru aðeins Pétur, Tomsick og Whitfield sem spiluðu meira en 20 mínútur í liði Tindastóls í kvöld. Pétur var með 25 stig, 11 stoðsendingar og fimm fráköst og Stólarnir eru bara allt önnur maskína með Pétur malandi. Tomsick skilaði 23 stigum og níu stoðsendingum og Anta gerði 16 stig. Axel og Hannes Ingi, sem lítið hafði spilað í síðustu leikjum, komu sprækir til leiks og Hannes endaði með 13 stig en Axel 11, báðir settu niður þrjá þrista. Stólarnir fengu 15 vítaskot í leiknum og settu öll niður en skotnýting liðsins var til fyrirmyndar, eða 52%, og Stólarnir fráköstuðu betur en gestirnir, 46 gegn 31 frákasti Þórsara. Fátt var um fína drætti í leikmannahópi Þórsara sem voru ólíkir sjálfum sér í kvöld. Þar var Deon Basile stigahæstur með 15 stig en Króksararnir tveir í Þórsliðinu, Hlynur Freyr og Ragnar, gerðu samtals 15 stig.
Tindastóll, Þór Akureyri og Grindavík eru nú öll með 16 stig en Grindvíkingar eiga leik til góða gegn liði Njarðvíkur. Stólarnir eru sem stendur í sjötta sæti deildarinnar en á sunnudag kemur lið Þórs úr Þorlákshöfn í Síkið en Þórsarar eru hitt spútniklið deildarinnar, eru sem stendur í öðru sæti sem er hreint magnað. Það má reikna með hörkuleik og nú verður spennandi að sjá hvort Stólarnir nái að byggja á þessum góða leik í kvöld. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.