Fimm sigurleikir í röð hjá Kormáki/Hvöt

Byrjunarlið Húnvetninga í leiknum. Mynd: Aðdáendasíða Kormáks
Byrjunarlið Húnvetninga í leiknum. Mynd: Aðdáendasíða Kormáks

Kormákur/Hvöt hélt sigurgöngu sinni áfram á laugardaginn sl. þegar að þeir skelltu sér í Mosfellsbæ og sigruðu lið Hvíta Riddarans 0:2. Fyrir leikinn voru Húnvetningar í þriðja sæti D-riðils fjórðu deildar með 12 stig, jafnmörg stig og Vængir Júpíters í öðru sætinu. Lið Léttis sat í efsta sætinu með 13 stig en þeir töpuðu sínum leik í þessari umferð gegn liði Vængja Júpiters og sitja því Vængirnir á toppi deildarinnar með jafnmörg stig og Kormákur/Hvöt en með betri markatölu.

Í lok fyrri hálfleiks var markalaust en í upphafi seinni hálfleiks fengu Húnvetningar vítaspyrnu þegar að brotið var á Sigurði Aadnegard og skoraði George Razvan Chariton örugglega úr henni og þar með sitt fjórða mark í riðlinum. Kormákur/Hvöt komust síðan í 0:2 þegar að Akil Rondel Dexter De Freitas hljóp upp allan völlinn sem endaði með glæsilegu einleiksmarki. Akil er sem stendur markahæstur í riðlinum með 5 mörk, jafnmörg mörk og leikmaður Vængja Júpiters, Sindri Snær Eyjólfsson.

Húnvetningar fá næst lið Eyfirðinga í heimsókn þegar að þeir taka á móti Samherja og fer sá leikur fram fimmtudaginn 24. júní nk. Það er ljóst Kormákur/Hvöt ætla sér að stóra hluti í ár, enda er stefnan tekin upp úr fjórðu deildinni.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir