Jafntefli í Hveragerði þegar Húnvetningar heimsóttu geðhrærða Hamarsmenn
Fyrri umferð í undanúrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu fór fram nú í kvöld. Eftir að hafa lagt lið Álftaness að velli í átta liða úrslitum fengu liðsmenn Kormáks Hvatar það verkefni að mæta Hvergerðingum í Hamri. Leikið var í Hveragerði og endaði leikurinn 1-1 eftir að heimamenn jöfnuðu í uppbótartíma. Þegar Feykir leitaði frétta af leiknum barst fréttatilkynning frá stuðningsliðinu skömmu síðar og birtist hún hér á eftir í heild sinni.
„Liðsmenn Kormáks Hvatar og hörðustu aðdáendur lögðu leið sína í Hveragerði í kvöld til að líta á fyrri viðureign heima- og aðkomumanna. Grýluvöllur er þekktur fyrir að vera einn erfiðasti völlur til að sækja heim, bæði vegna þess að hann er þröngur áspils og eins eru áhorfendur af öðrum meiði en saklaus ungmennafélög norðan úr landi eiga að venjast.
Leikurinn fór fjörlega af stað. Norðanmenn leyfðu sunnlendingum að eiga við boltann án þess að skapa nein færi af viti, en sóttu af áfergju þegar glufur mynduðust. Í sumar hafa skyndisóknir Húnvetninga verið unun á að horfa, eins og herþotur geysast kantmennirnir George og Akil upp og sýna flatfættum bakvörðum enga miskun.
Það var einmitt eftir slíkt skúespil að Akil lék upp vinstra megin og sá George hægra megin inni í teig. Nóg var þó eftir að gera fyrir George, en hann lempaði varnarmann Hamars og lagði snyrtilega út á Hilmar Kárason sem kláraði með bravúr. 0-1 fyrir norðrið eftir um 20 mínútur.
Áfram var haldið, Hamar sótti en komst ekki í land. Leikurinn var harður og Hamarsmenn þóttu hallað á sinn hlut svo af bæri. Þeir virtust lifa í þeirri trú að allt sem þeir gerðu mætti, en álíka aðgerðir Kormáks Hvatar megin væri trúvilla sem verðskuldaði nornabálköst. Þar fór fremstur í flokki óstýrilátur þjálfari liðsins sem trommaði upp geðshræringu frá fyrstu mínútu. Enda hlaut hann og gult spjald að launum og hefðu þau mátt vera fleiri.
Á síðustu andartökum fyrri hálfleiks brunaði Akil enn og aftur upp sinn kant og var tekinn sniðglímu í vítateig. Dæmt var og George tók. Markmaður Hamars varði og því 0-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur einkenndist af gríðarlegri baráttu og ókvæðum heimamanna. Það vakti athygli aðkomuáhorfenda að fæstir virtust komnir á völlinn til að njóta leiks, heldur mikið fremur til á að bölsótast, barma sér og baula. Svo var á tímabili að bleikklæddir í stúkunni voru farnir að óttast um öryggi sitt og ekki bætti úr skák þegar vallarþulurinn fór að kyrja rætin hvatningarorð í hljóðnemann. Allt mjög óstabílt hjá íbúum þessa háhitasvæðis.
Hvað um það. Gul spjöld fóru ótt og títt á loft en hvert viðmiðið til að fá þau var mjög óljóst. Bleikir áttu að fá tvö víti, annað þegar markmaður Hamars kýldi fyrirliðann Bjarka Árnason í höfuðið og messaði svo yfir honum fyrir leikræna tilburði. Hitt átti að koma þegar George var færður í jörðina með tæklingu sem ætti sennilega best heima í ameríska tilbrigði nú við fótbolta.
En hvað um það, leikurinn er búinn og dómar ekki afturvirkir.
Í uppbótartíma skoruðu Hamarsmenn eftir klafs og við það sat. Niðurstaðan jafntefli í hálf furðulegum leik þar sem fast var tekist á. Allir leikmenn liði síns stóðu sig vel, þar sem ekkert var skilið eftir. Baráttan til skínandi fyrirmyndar og mótlætið var ekki í fyrirrúmi.
Þetta er fyrri leikurinn, en sá síðari fer fram á þriðjudaginn komandi klukkan 17:00. Ekki beint eðlilegur leiktími en þetta eru jú úrslit fjórðu deildar. Sigurvegarinn þar fer upp um deild, svo einfalt er það.
Við óskum eftir stuðningi alls Norðurlands-vestra á þeim leik. Ein lokabarátta - einn lokaleikur og allt er undir.“
Í hinum leik undanúrslitanna mættust lið KH og Vængja Júpiters og þar voru úrslitin á sama veg en Vængirnir jöfnuðu metin í blálokin. Sem fyrr segir fara seinni leikirnir fram nú á þriðjudag og Húnvetningar í dauðafæri með að komast upp. Vert er þó að minna á að Hamarsmenn gerðu einnig jafntefli á heimavelli í fyrri leik sínum í átta liða úrslitunum en unnu síðari leikinn 1-3. Þeir eru því engin lömb að leika sér við og án efa verður boðið upp á naglbít og neskaffi á Blönduósi í hreinum úrslitaleik um sæti í 3. deild. Áfram Kormákur Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.