Engin Stólajól í Keflavíkinni

Nú þurfa menn að standa saman og rísa upp á ný. MYND: DAVÍÐ MÁR
Nú þurfa menn að standa saman og rísa upp á ný. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það var nú varla nein jólaskemmtiferð sem Tindastólsmenn fóru í Keflavík í gær og engir afslættir í gangi suður með sjó. Keflvíkingar tóku kröftuglega á móti gestum sínum og lögðu grunninn að öruggum sigri sínum með glimrandi leik í fyrsta leikhluta þar sem Stólarnir voru hreinlega áhorfendur. Strákarnir okkar gáfust þó ekki upp, bitu reglulega frá sér en slæmu kaflarnir voru of langir og slæmir. Níu stiga tap, 93-84, gefur ekki sanna mynd af leiknum sem tapaðist af talsverðu öryggi.

Í viðtali við Stöð2Sport eftir leik sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls: „Þetta var bara erfitt. Fyrsti leikhluti býr til holu en við mætum allt of 'soft' til leiks. Við gerum svo vel að auka ákafann og gera það sem við erum góðir í. Við gerum það vel seinni partinn af 30 mínútunum. Til þess að vinna hér þá þarftu að mæta í leikinn frá byrjun, það þýðir ekki að byrja fyrsta leikhluta ekki til staðar.“

Lið Tindastóls réð lítið við þá Milka og Okeke sem tóku samtals 17 sóknarfráköst í leiknum. Þeir byrjuðu á þessum leiðindum strax í fyrsta leikhluta en þá tók lið Keflavíkur tíu sóknarfráköst og leiddu enda 29-12 að honum loknum. Tindastólsmenn sýndu sparihliðina í öðrum leikhluta og komu sér betur inn í leikinn með góðri vörn. Þristar frá Arnari og Pétri og körfur frá Taiwo minnkuðu muninn í átta stig, 31-23, en heimamenn skrúfuðu fyrir lekann og voru þetta átta til 16 stigum yfir fram að hléi. Þá stóð 51-38.

Stólarnir þurftu að koma til leiks í síðari hálfleikinn með sama fítonskrafiinn og þeir komu til leiks í öðrum leikhluta. Sú óskhyggja skilaði litlu því heimamenn voru fljótlega komnir með 18 stiga forystu. Valur okkar Valsson kom Keflvíkingum síðan 21 stigi yfir upp úr miðjum þriðja leikhluta, 66-45. Axel Kára smellti í þrist í lok leikhlutans og minnkaði muninn í 18 stig á ný, 75-57. Það þokaðist í rétta átt hjá Stólunum í fjórða leikhluta en í stöðunni 82-66, og rúmar fimm mínútur til leiksloka, meiddist Okeke illa í liði Keflvíkinga og má kannski segja að við það hafi heimamenn misst taktinn. Lið Tindastóls náði að klóra aðeins í bakkann og skoraði átján stig á síðustu fimm mínútum leiksins. Það dugði ekki til sigurs en lokatölurnar kannski ekki jafn niðurdrepandi og í stefndi.

Leikurinn í gær var viðureigna tveggja af toppliðum deildarinnar. Það var ekki að sjá þar sem sigur heimamanna var aldrei í hættu. Of fáir leikmanna Tindastóls náðu sér á strik og Milka, Okeke og Jaka stjórnuðu því sem þeim sýndist í teignum. Engu að síður var Sigtryggur Arnar stigahæstur í Sláturhúsinu, gerði 24 stig og setti niður fjóra þrista í níu tilraunum og hirti auk þess sjö fráköst – flest fráköst Stólanna! Það kviknaði á Bess undir lok leiksins og hann kláraði með 17 stig, Siggi var með tíu stig og fjögur fráköst rétt eins og Taiwo Badmus sem gerði níu stig í gærkvöldi. Pétur gerði átta stig, Massamba og Axel sex hvor og Viðar fjögur. Í liði heimamanna var Calvin Burks Jr. stigahæstur með 22 stig en framlagshæstur var Milka með 18 stig og 16 fráköst.

Einhverjir virtust nú fá minniháttar taugaáfall að leik loknum og spóluðu reyk og drullu yfir lið Tindastóls með tilheyrandi bölsýni. Það er rétt að muna að Subway-deildin er sterk, flestir geta unnið flesta, og þrátt fyrir tapið í gær hefur lið Tindastóls unnið tvo þriðju leikja sinna og er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar. Næstkomandi fimmtudag koma Íslandsmeistararnir í Síkið alla leið úr Þorlákshöfn. Það er ágætist áminning um að það er allt hægt. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir