Emeselausar Stólastúlkur lutu í parket gegn Ármanni

Eva Rún var með 13 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar í gær. MYND: DAVÍÐ MÁR
Eva Rún var með 13 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar í gær. MYND: DAVÍÐ MÁR

Stólastúlkur léku við lið Ármanns í Kennaraháskólanum í gær í elleftu umferð 1. deildar kvenna. Þetta er í annað sinn í vetur sem liðiin mætast þar og líkt og í fyrra skiptið þá voru það heimastúlkur sem höfðu betur. Lið Tindastóls lék á Emese Vida sem er meidd og mátti liðið illa við því að vera án hennar. Líkt og oft áður í vetur byrjaði lið Tindastóls vel og leikurinn var spennandi fram í miðjan annan leikhluta en þá skildu leiðir. Lokatölur reyndust 89-61.

Lið Tindastóls komst í 7-12 eftir rúmar þrjár mínútur en lið Ármanns jafnaði um hæl. Jafnt var á flestum tölum út leikhlutann en tvö víti frá Chloe sáu til þess að Stólastúlkur voru yfir, 20-21, þegar annar leikhluti hófst. Heimastúlkur komust yfir strax en gestirnir voru ekki langt undan og staðan 34-30 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Næstu tíu stig gerði lið Ármanns og staðan í hálfleik 49-34. Stólastúlkum tókst ekki að minnka muninn í síðari hálfleik og lið Ármanns, sem var án erlends leikmanns, jók forystuna hægt og sígandi með Jónínu Þórdísi, Telmu Lind og Hildi Ýr í fantaformi og þá ekki síst fyrir utan 3ja stiga línuna.

Chloe Wanink gerði rétt tæplega helming stiga Stólastúlkna, 30, og hún hirti átta fráköst. Eva Rún skilaði 13 stigum á töfluna og sex fráköstum og Inga Sólveig var með sex stig og níu fráköst. Lið Ármanns gerði 45 stig úr 3ja stiga skotum og var með 43% nýtingu (15/35) á meðan lið Tindastóls gerði 18 stig utan línunnar og voru með 25% nýtingu (6/24). Þar lá nú í raun hundurinn grafinn en heimastúlkur voru einnig sterkari á frákastasvellinu. Aðeins átta stúlkur voru á skýrslu hjá Stólunum og fengu allar dágóðar mínútur á parketinu.

Næsti leikur Tindastóls verður í Stykkishólmi gegn liði Snæfells sem er í þriðja sæti deildarinnar eftir tap á Akureyri í gær en Snæfell á leik til góða á lið Þórs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir