Elísa Bríet og Katla Guðný æfa með U15
30 manna leikmannahópur hefur verið valinn til að taka þátt í úrtaksæfingum U15 ára landsliðs kvenna. Tvær Tindastólsstúlkur komust í gegnum nálaraugað en þær Katla Guðný Magnúsdóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir hafa verið kallaðar til æfinga dagana 11.-13. janúar.
Æft verður í Miðgarði í Garðabæ undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar þjálfara U15 kvk. Bæði Katla og Elísa hafa verið að æfa og spila með meistarflokki Tindastóls í vetur en þær eru fæddar árið 2008, Katla Króksari en Elísa frá Skagaströnd.
Fram kemur í frétt á Facebook-síðu stuðningsmanna Tindastóls að Elísa lék með U-15 landsliðinu í Póllandi í haust og stóð sig frábærlega. „Elísa er gríðarlega góður miðjumaður sem býr yfir ótrúlegri tækni og getur sent boltann með hægri og vinstri auk þess sem hún hefur gríðarlega mikla hlaupagetu. Katla er eldfljót og áræðinn sóknarmaður sem skoraði tæp 40 mörk í sumar með 2.fl, 3. fl og 4. flokki. og lagði upp nokkur mörk líka,“ segir Tóti þjálfari um stelpurnar.
Stelpurnar spiluðu síðasta sumar með sameiginlegum liðum Tindastóls/Hvatar/Kormáks. Auk stúlknanna tveggja frá liði Tindastóls eru fjórar aðrar stúlkur utan suðvesturshorninu í æfingahópnum; tvær frá Þór/KA, ein frá Sindra Hornafirði og ein úr ÍBV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.