Ekkert gefins í Síkinu

MYND: KÖRFUKNATTLEIKSDEILD TINDASTÓLS
MYND: KÖRFUKNATTLEIKSDEILD TINDASTÓLS

Fjallbrattir ÍR-ingar mættu vígreifir í Síkið í gærkvöldi og hugðust fylgja eftir góðum sigri á Stjörnunni með því að gera Tindastólsmenn að sínum næstu fórnarlömbum. Slæm byrjun ÍR setti það plan í uppnám og lið Tindastóls leiddi allan leikinn þó munurinn færi alveg niður undir tvö stigin í lokakafjórðungnum. Stólarnir höluðu því inn tvö stig í leik þar sem fegurðin lét í minni pokann fyrir krafti og baráttu. Lokatölur 84-78.

Það var lítið skorað í upphafi leiks og Stólarnir 6-0 yfir þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Matthías Orri, sem var frábær í liði ÍR, kom gestunum á blað en það voru heimamenn sem voru sterkari í fyrsta leikhluta. Þeir komust í 12–2 og Pálmi Geir setti niður sinn annan þrist og lagfærði stöðuna í 21–11 þegar mínúta var eftir af leikhlutanum. Í öðrum leikhluta var munurinn á liðunum yfirleitt þetta 6–10 stig en Stólarnir hvíldu Pétur sem var langt frá sínu besta í upphafi leiks. Gestirnir brutu ótt og títt á leikmönnum Tindastóls og söfnuðu villum villt og galið. Stólarnir voru slakir af vítalínunni, 16/28 (57%) í leiknum á meðan ÍR-ingar voru nánast óskeikulir í sínum vítaskotum, 25/26 (96%) og náðu þannig að hanga inni í leiknum. Staðan í hálfleik var 38–33 fyrir Tindastól.

Varnir beggja liða voru sterkar allan leikinn en stuðningsmönnum Tindastóls fannst nóg um sóknarfeila sinna manna í fyrri hálfleik og vonuðust eftir að Israel Martin næði að hrista upp í sínum mönnum í leikhléi. Antonio Hester mætti af miklum krafti til síðari hálfleiks og gerði fimm fyrstu stigin en fékk síðan tvær villur dæmdar á sig á skömmum tíma og var drifinn af velli til kælingar með fjórar villur á bakinu. Nokkrum mínútum síðar, í stöðunni 55-47, fékk Quincy Hankins-Cole sína fjórðu villu í liði ÍR. Hann stal boltanum stuttu síðar og geystist upp völlinn en Pétur náði boltanum snilldarlega af honum og sendi boltann yfir allan völlinn í hendurnar á Helga Viggós sem lagði boltann í körfu ÍR. Í kjölfarið gerðu gestirnir síðan sjö stig í röð en Hannes Ingi átti síðasta orðið í þriðja leikhluta, setti niður tvö víti og staðan 59-54.

Helgi Margeirs jók muninn í byrjun fjórða leikhluta en nú ákvað Quincy að láta reyna á hæfileika sína utan 3ja stiga línunnar því honum hafði lítið orðið ágengt í baráttu sinni við Helga Viggós og félaga í vörn Tindastóls. Hann minnkaði muninn í 61-59 en Helgi svaraði með þristi. Aftur svaraði Quincy, þá tróð Hester og Trausti gerði körfu fyrir ÍR. 66-64. Aftur kom stór þristur frá Helga og í kjölfarið stal Björgvin boltanum af ÍR-ingum og lagði í körfu þeirra. Hester tróð svo aftur og Stólarnir komnir með smá andrými, níu stiga forskot, en ÍR-ingar gáfust ekki upp. Þegar mínúta var eftir gerði Quincy þriðju 3ja stiga körfu sína í leikhlutanum og eftir vont 3ja stiga skot frá Caird þá minnkaði Hákon Örn, sem átti frábæran leik, muninn í þrjú stig fyrir ÍR. Þá nennti Helgi Margeirs þessu ekki lengur og setti niður 3ja stiga skot einhverstaðar utan af velli og skilaboðin voru: Takk fyrir komuna piltar, nú megið þið fara heim!

Lokatölur sem fyrr segir 84-78 og sérkennilegur leikur, en spennandi, að baki. Stólarnir aftur á sigurbraut eftir tvö ömurleg kjaftshögg gegn KR og Þór Akureyri. Hester var bestur í liði Tindastóls (22 stig og 11 fráköst) og á köflum algjört skrímsli í síðari hálfleik. Varnarleikur Tindastóls var flottur í leiknum og ljóst að sigurinn hefði verið öruggari ef ÍR-ingar hefðu verið normal á vítalínunni. Helgi Rafn, Björgvin og ekki síst Viðar gerðu gestunum erfitt fyrir. Í sókninni munaði miklu um að hvorki Pétur, Björgvin né Chris Caird voru upp á sitt besta en Helgi Margeirs setti niður nokkra stóra þrista sem skiptu máli í lokin.  Í liði ÍR var Matthías Orri stigahæstur með 23 stig og þar af var hann 10/10 af vítalínunni. Hann tapaði reyndar átta boltum. Þá var Hákon Örn magnaður með 16 stig og tók þátt í smá hanaslag við stuðningsmannalið Stólanna. Quincy skreið í 15 stig og gekk ekkert með vörn Stólanna og þá klikkaði Sveinbjörn Claessen á nokkrum stórum skotum í lokafjórðungnum sem hefðu getað snúið leiknum gestunum í vil.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir