Dýrmæt stig töpuðust í uppbótartíma

Pape skallar frá marki Stólanna eftir hornspyrnu gestanna. MYND: ÓAB
Pape skallar frá marki Stólanna eftir hornspyrnu gestanna. MYND: ÓAB

Það var hart barist á Sauðárkróksvelli í gær þegar sameiginlegt lið Dalvíkur og Reynis Árskógsströnd mætti heimamönnum í Tindastóli í 3. deildinni. Bæði lið þráðu sigur; Stólarnir til að safna stigum í botnbaráttunni en gestirnir þurftu stigin ef þeir ætluðu að eiga raunhæfan möguleika á að keppa um sæti í 2. deild. Það fór svo að liðin sættust á jafntefli en D/R jafnaði leikinn í uppbótartíma. Lokatölur 2-2.

Það var heldur svalara á vellinum en að undanförnu og pínu norðangola í þokudrullunni. Gestirnir hertóku bæði stúkuna og völlinn og höfðu öll völd fyrsta hálftímann, ákaft studdir af fjölmennum dimmrödduðum drengjakór sem söng og kvartaði jöfnum kveinandi röddum. Lið D/R virtist fullt sjálfstrausts, var á undan í alla bolta og spilaði boltanum mun betur en heimamenn sem virkuðu daufir og ráðalausir. Gunnlaugur Ingvarsson kom Eyfirðingunum yfir strax eftir níu mínútur en þá kom ágæt sending inn fyrir vörn Stólanna og Gunnlaugur nýtti sér hik í vörn heimamanna og skoraði af öryggi. Jöfnunarmark Stólanna á 29. mínútu kom eins og blaut tuska í andlit gestanna sem höfðu haft öll völd fram að því. Þá rataði frábær hornspyrna Konna beint á kollinn á Marko Zivkovic sem hamraði boltann í markið. Eftir þetta óx Tindastólsmönnum ásmegin og Spánverjarnir sýndu á stundum lipra takta en gestirnir voru sem fyrr meira með boltann. Stólarnir náðu síðan frábærri skyndisókn þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik, unnu boltann og komu honum út á vinstri kant þar sem kantarinn sá gott hlaup hjá Pape. Sendingin var pottþétt og Pape slapp inn fyrir og skoraði af öryggi. Staðan 2-1 fyrir heimamenn í hálfleik, sem gat nú varla talist sanngjarnt.

Í síðari hálfleik vörðust heimamenn eins og ljón en tókst hreinlega aldrei að láta botann ganga innan liðsins svo nokkri næmi. Hver sókn gestanna dundi á vörn Stólanna sem stóð sig vel og varði markið með kjafti og klóm. Atli Dagur þurfti ekki oft að verja í markinu en gerði það vel í þau skipti sem skot eða skallar rötuðu á rammann. Það leit allt út fyrir að heimamenn næðu að krækja í stigin dýrmætu, enda gestirnir orðnir verulega örvæntingarfullir þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Jöfnunarmarkið kom eftir að Stólarnir skiptu út hægri bakverði fyrir varnarmann; Stólarnir höfðu komið boltanum frá marki en í stað þess að halda boltanum þá unnu gestirnir boltann strax, náðu góðri sendingu á fjærstöng þar sem Þröstur Jónasson var einn og óvaldaður og náði frábærum skalla á nærstöng sem Atli átti ekki roð í.

Það féll því bara eitt stig í pottinn hjá Stólunum og ekki í fyrsta skiptið í sumar sem stig tapast á lokamínútum leikja liðsins. Stólarnir eru nú með 14 stig líkt og lið ÍH sem þeir heimsækja einmitt í næstu umferð en Hafnfirðingarnir hafa nú spilað leik færra en okkar menn. Lið Tindastóls er í tíunda sæti, ÍH því ellefta og Einherji er í tólfta og neðsta sæti með tíu stig.

Talsverð mannekla virðist há Stólunum en í síðustu leikjum hefur Konni fyrirliði verið að spila í vörninni þar sem hann hefur reyndar verið ágætur. Kannski bitnaði þetta þó á leik liðsins í gær þar sem hörmulega gekk að halda boltanum á miðjunni. Þrátt fyrir töluverða yfirburði gestanna þá stóð vörn Stólanna vel – vörnin í þessu tilviki allt liðið – og gaf ekki mörg færi á sér þó pressan væri mikil og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Það má því segja að vörnin hafi verið búin að vinna fyrir þremur stigum með frammistöðu sinni en eins og svo oft í sumar þá var enginn vinningur á þessum miða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir