Dúndurspenna á toppi Domino´s deildarinnar. Tindastóll sækir Njarðvík heim í Ljónagryfjuna
Tveir leikir fara fram í Domino´s deildinni í kvöld og þar með þeir síðustu í 21. og næstsíðustu umferð deildarinnar. Tindastóll getur með sigri jafnað Hauka sem ekki tókst að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í gærkvöldi.
Fjórir leikir fóru fram í gær og má segja að leikur ÍR og Hauka hafi skipt Tindastól hvað mestu máli því Haukar gátu með sigri tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Þeim brást hins vegar bogalistin, naumlega þó, því ÍR hafði betur 64:62. Þessi sigur ÍR-inga kom þeim upp fyrir Stólana á stöðutöflunni með jafnmörg stig en einum leik fleiri og betri stöðu í innbyrðis viðureignum. Úrslitin gefa þó Stólunum smá von um að landa deildarmeistaratitlinum, með sigri í þeim tveimur leikjum sem eftir eru og treysta því að hvorki Haukar né ÍR vinni sína síðustu leiki. Haukar hafa líka betur í innbyrðis viðureignum gegn Stólum sem og ÍR þannig að þeir standa best að vígi ef tvö liðanna verða jöfn.
Á Fésbókarsíðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls kemur fram að leikur Tindastóls og Njarðvíkur verði að sjálfsögðu í þráðbeinni hjá TindastollTV enda klikka þeir ekkert frekar en fyrri daginn. „Viljum samt hvetja alla á stór höfuðborgarsvæðinu að að fjölmenna á leikinn og hvetja strákana hressilega,“ segir þar einnig og er óhætt að taka undir það.
Hinn leikur kvöldsins er á milli Stjörnunnar og Keflavíkur sem sitja í 7. og 8. sæti með 20 stig hvort og fer því það lið sem fer með sigur af hólmi upp fyrir hitt.
Sjá leikjaplan og úrslit HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.