Draugamót Molduxa í stað Jólamóts
Jólamót Molduxa í körfubolta fellur niður annað árið í röð vegna Covid-19 sóttvarnatakmarkana en í staðinn verður svokallað draugamót líkt og í fyrra þar sem fólki er gefinn kostur á að styðja við rekstur körfuboltadeildar Tindastóls.
Í tilkynningu frá Molduxum segir:
„Eins og í fyrra ætlum við að halda draugamót þar sem enginn snertir bolta en styður samt við körfuboltann á Króknum. Þar sem allur ágóði af Jólamótum Molduxa hefur runnið til körfuknattleiksdeildar Tindastóls, og er stór liður í fjáröflun deildarinnar, munu Molduxar, líkt og um seinustu jól, bjóða liðum að skrá sig í leik og njóta um leið forgangs á þátttöku í Jólamóti Molduxa 2022.
Mun nafn liðsins fara í pott (á Fésbókarsíðu klúbbsins) og kl. 18 á annan í jólum verður eitt lið dregið úr pottinum og hlýtur flatbökuveislu fyrir tíu manns á Hard Wok Cafe, og gullmedalíur að launum, sem væntanlega verða safngripir framtíðarinnar. Gjald á hvert lið er kr. 20.000.
Einstaklingar eru einnig hvattir til að skrá sig og fara þeir í annan pott sem dregið verður úr og fá útdregnir óvæntan glaðning frá Sauðá, Lemon og N1. Skráning á hvern einstakling er kr. 2000.
Greitt skal fyrir 20. desember inn á reikning 0310-26-006000, kt. 590118-0600.
ATH. ef greiðsla er ekki komin fyrir þann tíma verður viðkomandi skráning ekki tekin gild.
Molduxar heita því að skrá a.m.k. tíu lið, en þú?
Skráning á netfangið pilli@simnet.is.
Upplýsingar á Fésbókarsíðu Molduxa.“
Í fyrra tóku tólf lið þátt og 20 einstaklingar og Molduxar jöfnuðu þátttökugjöld þeirra og meira til. Í ár hafa Uxarnir heitið því að skrá tíu lið í keppnina og skora á aðra að taka þátt, bæði lið sem hafa tekið þátt í keppninni í gegnum tíðina og einnig ný lið sem hafa áhuga á körfubolta en spila ekki endilega og væri það tilvalið fyrir fyrirtæki að skrá lið í sínu nafni.
Einstaklingar eru einnig hvattir til að fjölmenna.
Tengd frétt: Afrakstur Jólamóts Molduxa sem ekki fór fram rúm hálf milljón
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.