Brakandi fínn sigur á Breiðhyltingum í Síkinu

Taiwo Badmus var stigahæstur Stóla í gær með 29 stig. MYND: HJALTI ÁRNA
Taiwo Badmus var stigahæstur Stóla í gær með 29 stig. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsstrákarnir tóku á móti liði ÍR í Síkinu í gærkvöldi í nokkuð sveiflukenndum leik. Heimamenn höfðu frumkvæðið lengstum en í Breiðhyltingar hafa löngum átt í basli með að gefast upp og sú varð raunin að þessu sinni. Þegar leikurinn átti að vera kominn í öruggar hendur Stólanna þá slökuðu okkar menn á og lið ÍR gekk á lagið, minnkaði muninn í fjögur stig í fjórða leikhluta. Þeir héldu hins vegar ekki dampi og á endanum tryggðu Stólarnir sér 21 stigs sigur, Lokatölur 98-77 þar sem byrjunarlið Tindastóls gerði 94 af 98 stigum og Nesi sá um rest.

Leikurinn var jafn og ágætlega leikinn framan af en á meðan Stólarnir hafa verið í toppbaráttu Subway-deildarinnar hefur verið brösótt gengi á Breiðhyltingum. Í síðustu umferð gjörsigruðu þeir hinsvegar svarthvíta Vesturbæinga og gátu því borið höfuðið hátt þegar þeir mættu í Síkið undir stjórn Friðriks Inga. Gestirnir komust í 10-15 um miðjan fyrsta leikhluta en fimm stig frá Arnari jöfnuðu leikinn en Stólarnir leiddu, 22-20, að honum loknum. Gestirnir byrjuðu annan leikhluta betur og komust yfir en Taiwo Badmus, sem áttu stjörnuleik í gær, kom heimamönnum yfir, 27-25, þegar 13 og hálf mínúta var liðin af leiknum og eftir það héldu Stólarnir forystunni til leiksloka. Það munaði þremur stigum á liðunum þegar tvær mínútur voru til leikhlés, 37-34, en þá kom 10-0 kafli hjá Stólunum og skyndilega var staða heimamanna orðin ansi vænleg.

Munurinn 13 stig í hálfleik, 47-34, og gestunum gekk illa að krafsa í það forskot framan af þriðja leikhluta. Taiwo gerði átta fyrstu stig Stólanna, tróð þar á meðal í tvígang, og lið ÍR réð ekkert við hann. Um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 20 stig, 61-41, og hélst þannig í tvær mínútur en síðustu þrjár mínútur leikhlutans komu ÍR-ingar hægt og sígandi til baka. Þeir minnkuðu muninn í níu stig en Hannes Ingi setti niður tvö víti áður en tíminn var úti og staðan því 70-59 þegar fjórði leikhluti hófst. Eftir tæplega þriggja mínútna leik var munurinn kominn niður í fjögur stig, 73-69, og þá tók Baldur leikhlé til að stöðva meðbyr gestanna og leggja sínum mönnum lífsreglurnar. Áður en Javon Bess jók muninn í átta stig átti Colin Pryor möguleika á að minnka muninn í þrjú stig þegar hann fékk opið skot utan 3ja stiga línunnar, það geigaði og leikurinn rann úr höndum gestanna. Þeir lentu í bullandi villuvandræðum og áður en yfir lauk voru þrír komnir með fimm villur og það reyndist þeim dýrkeypt.

Það má kannski segja að það sé fullmikið af jólaseríum á lokatölum leiksins því þó þetta lýti ljómandi vel út fyrir Tindastólsmenn þá var sigurinn ekki svona öruggur. Lið Tindastóls er sem stendur í 2.-3. sæti deildarinn, hefur unnið sex leiki en tapað tveimur líkt og meistararnir úr Þorlákshöfn. Sennilega tækju margir stuðningsmenn Stólanna undir það að þó liðið hafi unnið sex leiki af átta þá hefur sigrarnir ekki verið verulega sannfærandi. Vörnin hefur á tímum verið glimrandi en sóknarleikurinn kannski aldrei alveg smollið í gang.

Byrjunarliðið átti fínan leik í gær þar sem allir gerðu í það minnsta 13 stig. Bekkjarbræður spiluðu ekki illa en skiluðu sem fyrr segir aðeins fjórum stigum á töfluna. Það er áhyggjuefni að annan leikinn í röð skoraði Pétur ekki stig en kappinn var þó með fimm stoðsendingar og fjögur fráköst. Taiwo og Siggi Þorsteins skiluðu fínu framlagi í gær; Taiwo með 29 stig og sex fráköst, Siggi með 15 stig og tíu fráköst. Bess fór frekar rólega af stað í leiknum, hitti ekki vel, en eins og oft áður var hann sterkur á lokakaflanum og gerði 22 stig í leiknum. Arnar var með 15 stig og Thomas Massamba átti ágætan leik og skilaði 13 stigum, níu stoðsendingum og fjórum fráköstum. Í liði ÍR voru Colin Pryor, Sigvaldi Eggerts og Triston Simpson allir með 16 stig.

Næstu tveir leikir Tindastóls eru gegn liðunum sem eru ofar í töflunni á þessari stundu. Fyrst heimsækja strákarnir Keflavík 10. desember og þann 16. desember koma Íslandsmeistarar Þórs í heimsókn. Á milli jóla og nýárs fer fram lokaumferð fyrri umferðar Subway-deildarinnar en þá kíkja strákarnir í heimsókn á Akureyri.

Tölfræði af vef KKÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir