Boltinn í dag og um helgina
Ótrúlegt en satt þá verður spilaður fótbolti og körfubolti í dag og um helgina. Kvennalið Tindastóls spilar á Akranesi í dag en leiknum var flýtt, átti að fara fram á morgun en hefst semsagt kl. 17:30 í dag í Akraneshöllinni. Með sigri verða Stólastúlkur meistarar í Lengjudeildinni sem sannarlega væri einstakur árangur í knattspyrnusögu Ungmennafélagsins Tindastóls.
Lið Kormáks/Hvatar spilar um þriðja sætið í úrslitakeppni 4. deildar þar sem Húnvetningarnir mæta Hvergerðingum í Hamri. Leikurinn hefst kl. 13:00 og fer fram á Domusnovavellinum en það er völlur Leiknis í Breiðholti.
Karlalið Tindastóls á heimaleik á morgun, laugardag, en þá fá strákarnir lið Augnabliks úr Kópavogi í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 16:00. Það er engin sól í veðurkortunum fyrir leikinn en þó um 6 stiga hita og hæggengri norðanátt.
Þá eru Stólastúlkur í eldlínunni í körfunni og spila í Grindavík við lið heimastúlkna í 1. deild kvenna laugardaginn 3. október kl. 16:00. Nú er um að gera fyrir stuðningsmenn Tindastóls og Kormáks/Hvatar að skella sér á viðeigandi völl og hvetja sitt fólk til góðra verka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.