Boltaleikir settir á ís í bili
Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið vegna aðstæðna í samfélaginu og hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, að fresta mótahaldi innanlands í öllum aldursflokkum í eina viku. Þá verður ákvörðun tekin um framhaldið. Körfuknattleikssamband Íslands hefur af sömu ástæðu frestað öllum leikjum á sínum vegum til og með 19. október.
Það er því ljóst að Tindastólsmenn heimsækja ekki KR í Vesturbæinn í Dominos-deildinni annað kvöld og þá er óráðið hvenær Stólastúlkur mæta Húsvíkingum á Króknum í lokaumferð Lengjudeildarinnar og taka við bikarnum fyrir sigur í deildinni. Þá átti karlalið Tindastóls að fara austur á Vopnafjörð á laugardag en af því verður ekki í bili.
Efalaust hafa margir verið spenntir að sjá lið Tindastóls tækla KR-ingana hans Darra Skagfirðings í körfunni en verra er að söguleg stund á Króknum, þegar Stólastúlkur fengju afhentan bikar fyrir sigur í Lengjudeildinni, frestast nú um óákveðinn tíma. „Þær eru gífurlega svekktar stelpurnar okkar með að fá ekki að spila leikinn núna á föstudag því þær hlakkar mikið til stóru stundarinnar með ykkur. Ég vona því svo sannarlega að þið munið (og megið) koma og fagna með okkur þó síðar verði,“ segir Jón Stefán Jónsson, annar þjálfari Stólastúlkna, í skilaboðum til stuðningsmanna Tindastóls á Facebook.
Jónsi segir að liðið vilji að sjálfsögðu helst fá bikarinn að fótboltaleik loknum og með sínu stuðningsfólki þar sem allir samgleðjast. Sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi að ekki verði unnt að klára mótið ef illa gengur að vinna á veirunni skæðu og þá gæti þurft að fagna með öðrum hætti þegar þar að kemur. Jónsi tekur fram að KSÍ stefni á að klára mótið þannig að hann gerir sér vonir um að leikurinn verði spilaður.
„Að þessu sögðu þá skiljum við ákvörðun KSÍ fullkomlega og bíðum þolinmóð eftir stóru stundinni. Þangað til þar að kemur þurfum við að komast yfir í baráttunni við sameignlegan andstæðing okkar allra þessa stundina, þessa helv.. veiru,“ segir Jónsi að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.