Boltaleikir helgarinnar og fréttir af Körfu-Könum – Breyttur leiktími hjá stelpunum
Boltaþyrstir ættu að hafa nóg til að svala þorsta sínum um helgina. Norðlensku liðin í fótboltanum spila þrjá leiki og körfupiltarnir verða í Mathús Garðabæjar-höllinni í kvöld og þangað ættu sveltir stuðningsmenn körfuboltaliðs Stólanna að geta kíkt.
Veislan hefst hins vegar klukkan 16:30 í dag þegar karlalið Tindastóls mætir einu af toppliðum 3. deildarinnar í knattspyrnu, Reyni Sandgerði, á BLUE-vellinum við Suðurgötu í Suðurnesjabæ en strákarnir eru varla búnir í sturtu eftir sigurleikinn gegn Vopnfirðingum sl. þriðjudagskvöld.
Svo verður sem fyrr segir körfubolti í Garðabænum þar sem Stjörnumenn bíða eftir liði Tindastóls. Leikurinn hefst kl. 19:00. Það er aldrei að vita nema Justin Shouse verði með kjúklingavængina sína fyrir utan höllina.
Á morgun, laugardag, verða svo tveir fótboltaleikir þar sem Kormákur/Hvöt og kvennalið Tindastóls verða í eldlínunni en báðir leikirnir hefjast kl. 14:00. Á Ásvöllum í Hafnarfirði taka KÁ strákarnir á móti Húnvetningunum í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum 4. deildarinnar.
Stólastúlkur taka á móti liði ÍA á Króknum og hefur leiknum verið flýtt um 90 mínútur þar sem veðurspáin gerir ráð fyrir heldur skárra veðri um og upp úr hádegi en um miðjan dag þegar spáð var hellirigningu og 17 m/sek vindi. Leikurinn átti að hefjast kl. 14:00 en hefur verið flýtt til 12:30.
Kanarnir komnir
Sennilega nær kvennalið Tindastóls í körfunni ekki öðrum alvöru æfingaleik áður en tímabilið hefst en samkvæmt upplýsingum Feykis kom Nicky, Dominique Toussaint nýr kani Stólastúlkna, til landsins í morgun og er komin í sóttkví. Sóttkví stendur í fjóra til sex daga, fer eftir því hvenær viðkomandi kemst í seinni skimun og að sjálfsögðu niðurstöðunni úr henni.
Shawn Glover, kani karlaliðsins, kom til landsins í byrjun vikunnar og fór í seinni skimun í morgun og ætti að fá niðurstöðu úr henni síðar í dag ef allt gengur að óskum.
- - - - -
Athugið! Frétt uppfærð vegna breytts leiktíma hjá stelpunum á Króknum
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.