Blikar í bóndabeygju í Síkinu
Blikar komu í Síkið í kvöld og mættu þar liði Tindastóls í sjöundu umferð Subway-deildarinnar. Reikna mátti með hörkuleik þar sem Stólarnir hafa verið að ná vopnum sínum að undanförnu eftir meiðslahrjáða byrjun á mótinu en lið Breiðabliks hefur aftur á móti leikið vel og sat fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar ásamt Íslandsmeisturum Vals. Þegar til kom reyndust Stólarnir mun sterkari aðilinn og eftir að hafa unnið annan leikhluta 34-8 þá var í raun aldrei spurning hvort liðið tæki stigin sem í boði voru. Lokatölur voru 110-75.
Blikarnir byrjuðu leikinn vel og komust í 0-5 en ekki leið á löngu uns heimamenn höfðu náð yfirhöndinni og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 16-9. Staðan var 30-25 að loknum fyrsta leikhluta eftir að Julio Afonso skellti í þrist um leið og flautan gall. Í öðrum leikhluta gekk allt upp hjá Stólunum en vörnin var spiluð með glans og sóknin fylgdi í kjölfarið. Fyrir hvert eitt stig sem gestirnir settu þá gerðu Stólarnir ríflega fjögur og þeir grænklæddu fundu engin svör við frábærum leik Tindastóls. Niðurstaðan 31 stigs munur í hálfleik og staðan 64-33.
Það má því segja að síðari hálfleikur hafi verið æfing í að halda einbeitingu og hleypa gestunum ekki inn í leikinn. Um miðjan þriðja leikhluta hafði aðeins dregið saman með liðunum og 24 stigum munaði en minnstur varð munurinn 21 stig í síðari hálfleik þannig að þetta próf stóðust Stólarnir með glæsibrag. Síðustu mínútu þriðja leikhluta nýttu Stólarnir vel; Drungilas settu tvo þrista og Keyshawn tvist og staðan 86-57 þegar fjórði leikhluti hófst, Síðasti dansinn var formsatriði en frekar bættu heimamenn í heldur en hitt og allir fengu að stíga sporin.
Frábær sigur gegn liði sem reyndist Stólunum erfitt síðasta vetur og hefur staðið sig frábærlega það sem af er veturs. Hittni Tindastólsmanna var talsvert betri en í síðasta leik í Grindavík enda töluvert meira skorað. Stigahæstur var Keyshawn með 24 stig en næstur honum kom Drungilas með 22 stig. Þá var Arnar með 13 stig, Zoran og Taiwo báðir með 12 og Raggi 11.
Í hinu svo gott sem frjálsskorandi liði Breiðabliks var Julio Afonso stigahæstur með 15 stig og Danero Thomas kom næstur með tíu stig. Það má því sjá að vörn Stólanna var osom í kvöld og hleypti gestunum aldrei í sinn leik.
Næsti leikur Tindastóls verður að Ásvöllum í Hafnarfirði þar sem okkar ástkæru Haukar bíða. Koma svo Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.