Basile tekur slaginn með Stólunum næsta vetur

Basile mun án efa kæta stuðningsmenn Stólanna. MYND: DAVÍÐ MÁR
Basile mun án efa kæta stuðningsmenn Stólanna. MYND: DAVÍÐ MÁR

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við bandaríska leikstjórnandann Dedrick Deon Basile um að spila með félaginu á næsta tímabili. Í fréttatilkynningu frá Stólunum segist kappinn vera mjög glaður með að ganga til liðs við Tindastól. „Ég hef spilað gegn liðinu síðustu þrjú ár í úrslitakeppninni og ég get ekki beðið eftir því að fá Tindastólsaðdáendur loksins til að hvetja mig áfram!“

„Þetta eru bestu stuðningsmenn landsins og gefa svo mikla orku sem nýtist liðinu svo ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að klæðast Tindastólstreyjunni og hefja þetta ferðalag” segir Basile.

Þetta verður fimmta tímabil Basile á Íslandi en hefur hann stimplað sig inn sem einn besti leikmaður Subway deildarinnar og ef marka má Orðið á götunni voru mörg lið á eftir honum að loknu tímabili í vor. Hann lék með liði Grindavíkur í vetur en það fór sem kunnugt er alla leið í úrslitaeinvígið þar sem þeir gulu máttu þola tap í oddaleik gegn Valsmönnum.

Dagur Þór, formaður Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segist mjög stoltur að fá Basile til liðs við félagið. „Tindastóll hefur mikinn metnað til þess að vera í allra fremstu röð, við setjum stefnuna hátt og ætlum okkur að sjálfsögðu að gera tilkall til allra titla sem í boði eru. Það er mikið fagnaðarefni að fá Dedrick norður og hann mun án efa nýtast liðinu vel,” segir Dagur.

Tindastólsfólk býður Dedrick Basile hjartanlega velkominn í Skagafjörðinn og hlakkar til að hvetja hann til dáða í Tindastólstreyjunni!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir