Barist með kjafti og klóm fyrir þremur stigum í Garðabænum
Þar kom að því að Stólastúlkur nældu í útisigur og sinn annan sigur í Pepsi Max deildinni. Þær heimsóttu lið Stjörnunnar í Garðabæinn í gær en heimaliðið hafði sigrað Íslandsmeistara Breiðabliks í umferðinni á undan, voru í fjórða sæti deildarinnar og því fullar sjálfstrausts. María Dögg kom liði Tindastóls í forystu á 7. mínútu með þrumupoti af hálfs meters færi og síðan vörðu stelpurnar forystuna allt til loka leiksins. Lokatölur 0-1 og þó lið Tindastóls sé enn í neðsta sæti gefa úrslitin í síðustu tveimur leikjum, þar sem liðið hefur haldið hreinu, ástæðu til bjartsýni.
Lið Tindastóls fór vel af stað í leiknum. Eftir að Dom hafði unnið hornspyrnu sendi Jackie hættulegan bolta inn á markteig Stjörnunnar, þar datt boltinn niður og eftir smá klafs var það María Dögg sem kom boltanum í markið og náði forystunni fyrir Tindastól – og komin með grobbréttinn á sínu heimili á ný. Eftir um 20 mínútna leik náðu heimastúlkur yfirhöndinni í leiknum og hófu að sækja að marki Tindastóls en Amber var sem fyrr traust í markinu og fyrir framan hana voru liðsfélagar sem hungraði í að halda í forystuna. Hugrún og Murr fengu báðar tækifæri í fyrri hálfleik en staðan 0-1 í hálfleik.
Sami darraðardansinn hélt áfram í síðari hálfleik. Lið Stjörnunnar pressaði stíft og fékk nokkur ágæt færi en landsliðskonan Katrín Ásbjörnsdóttir átti erfitt uppdráttar gegn vörn Tindastóls og náði ekki að klára þau færi af krafti sem hún þó fékk. Þá varði Amber allt sem á markið kom. Chante Sandiford, sem áður varði mark Hauka, þurfti sömuleiðis nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum í marki Stjörnunnar og Anna María bjargaði skoti frá Murr á línu. Leikmenn Tindastóls börðust eins og ljón allt til loka og fögnuðu innilega í leikslok.
Stólastúlkur til alls líklegar
Sem fyrr segir hafa Stólastúlkur nú haldið marki sínu hreinu tvo leiki í röð og það er nokkuð víst að þú tapar ekki leik ef þú heldur markinu hreinu. Reyndar var lið Tindastóls eina liðið sem hélt marki sínu hreinu í gær en þá fór fram heil umferði í Pepsi Max deildinni. Varnarleikurinn og markvarslan hafa verið í fínu standi í sumar en það hefur gengið verr að skora mörk og munar þar að sjálfsögðu mikið um að Murr hefur glímt við meiðsli.
Liðið er nú með átta stig að loknum níu leikjum, hefur unnið tvo leiki, gert tvö jafntefli en tapað fimm. Liðið er þó aðeins með markatölu sem er -7 og aðeins fengið einn skell í deildinni en það var hér heima gegn liði Vals en sá leikur fór 0-5. Aðrir tapleikir hafa tapast með einu marki og þó lið Tindastóls vermi botnsætið hefur frammistaða liðsins oftar en ekki verið aðdáunarverð í jafnri deild. Það sem hefur einna helst komið á óvart í deildinni nú í sumar er að það virðast allir geta unnið alla og þá geta taphrinur verið erfiðar.
Sigurinn í gærkvöldi var gríðarlega mikilvægur því nú er lið Tindastóls búið að ná í skottið á liðunum sem berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Stelpurnar okkar eru til alls líklegar í síðari umferðinni og nú þurfum við bara að styðja þær og fjölmenna á leiki liðsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.