Baldur Þór ógeðslega ánægður með sigurinn á KR
Körfuboltakappar stigu loks dans í gær eftir rúmlega þriggja mánaða stopp og í Vesturbænum tóku KR-ingar á móti liði Tindastóls í miklum hasarleik. Það var líkast því að hraðspólað væri yfir pásuna því bæði lið settu í fluggírinn en varnarleikur var einhver eftirþanki sem menn uppgötvuðu í hálfleik. Þrátt fyrir að lið Tindastóls væri yfir lengstum þá kom upp gamalkunnugt skrölt á lokakaflanum en Stólarnir voru seigir og náðu í stigin tvö í blálokin. Lokatölur 101-104.
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 32-32 en í hálfleik voru gestirnir yfir, 55-61. Shawn Glover, Antanas Udras og Nikolas Tomsick voru áberandi í sóknarleik Tindastóls en í liði heimamanna var Tyler Sabin allt í öllu í sínum fyrsta leik í Dominos-deildinni. Hann lauk leik með því að renna á rassinn en þá hafði hann reyndar nánast gert helming stiga KR-inga eða alls 47.
Í upphafi síðari hálfleiks létu leikmenn reyna aðeins á varnarleikinn og heldur hægðist á stigaskorinu. Stólarnir yfirleitt með 6-10 stiga forystu en fyrrum Tindastólsmaðurinn Brynjar Þór minnkaði muninn fyrir KR í fjögur stig, 71-75, þegar ríflega tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Udras átti síðustu körfu leikhlutans og Stólarnir átta stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 73-81.
Eftir tæplega fjögurra mínútna leik í fjórða leikhluta höfðu KR-ingar jafnað metin, staðan 85-85. Baldur tók leikhlé til að bregðast við góðum leik KR sem eru þjálfaðir af hinum al-skagfirska Darra Frey Atlasyni. Það sem eftir lifði leiks var leikurinn hnífjafn og nánast tilviljun háð hvort liðið næði í stigin tvö. Heimamenn náðu nokkrum sinnum fjögurra stiga forystu en Stólarnir héldu í við þá og þegar rúm mínúta var eftir minnkaði Glover muninn í eitt stig, 98-97. Sabin, sem nú þurfti að hafa mikið fyrir hlutunum, klikkaði á þristi og í staðinn setti Tomsick niður þrist og kom gestunum yfir, 98-100.
Matthías Orri jafnaði metin með vítum eftir að þremur dómurum leiksins yfirsást ekkert sérlega nett bakhrinding Brynjars á Pétri. Sabin kom KR yfir með einu vítaskoti, 101-100, en Glover svaraði með körfu eftir sendingu frá Tomsick og Stólarnir yfir þegar 10 sekúndur voru eftir. Darri tók leikhlé og KR-ingar ákváðu að sjálfsögðu að láta Sabin sækja sigurinn. Hann fékk á sig tvo menn en varð fyrir því að renna á parketinu í DHL-höllinni, missti þá boltann og Viðar náði honum og óð upp völlinn og lagði boltann í körfu KR í þann mund er leiktíminn rann út.
Breiddin meiri hjá Stólunum
Mikilvæg tvö stig í hús gegn liði KR sem voru sýnd veiði en ekki gefin. Vesturbæingarnir sendu sína útlendinga heim þegar ljóst þótti að COVID-pásan drægist á langinn og Sabin því eini erlendi leikmaður liðsins í gær. Hann var reyndar á við tvo-þrjá. Aðrir sem voru áberandi í liði heimamanna voru Björn Kristjáns (16 stig) og Matthías Orri (14 stig). Meiri breidd var í liði Tindastóls en Glover var atkvæðamestur með 30 stig og átta fráköst. Tomsick gerði 26 stig og tók fimm fráköst líkt og Udras sem gerði 20 stig í leiknum og nýtti skotin sín vel. Pétur átti líka góðan leik, gerði 12 stig, tók sjö fráköst og átti sjö stoðara.
„Ég er í fyrsta lagi ógeðslega ánægður með að hafa unnið leikinn,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi að leik loknum. „KR-ingar voru mjög góðir í þessum leik með það sem þeir höfðu. Mér fannst þeir hafa gert eins vel og hægt var að gera miðað við að þeir eru ekki með neina stóra leikmenn. Þetta var náttúrlega stórfurðulegur leikur og ég er bara ánægður að hafa klárað sigurinn.“ Baldur var ekki alveg sáttur við varnarleikinn og sagðist þurfa að skoða hann.
Það er skammt stórra högga á milli hjá liði Tindastóls því lið Njarðvíkur kemur í heimsókn á sunnudag og þá væntanlega með Hesterinn okkar í grænu. Næstkomandi fimmtudag mætir síðan gullvagn Vals af Hlíðarenda í Síkið. Báðir þessir leikir verða sýndir beint á Stöð2Sport.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.