Baldur og Kata mæta til leiks í Rallý Reykjavík
Dagana 25. - 27. ágúst fer fram fjórða umferð í Íslandsmeistarmótinu í rallý, Rallý Reykjavík. Það er Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur sem stendur fyrir keppninni en klúbburinn hefur staðið fyrir keppnishaldi frá árinu 1977.
Fara keppendur síðan vítt og breytt en eknir verða tæplega 1.000 km á þessum þremur dögum. Hefst keppnin fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 16:45 þegar ekið verður við Hvaleyrarvatn. Á föstudag verður ekið um Bjallarhraun, í nágrenni Heklu og á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Á laugardagsmorgunn liggur leiðin m.a. upp í Borgarfjörð þar sem ekið verður um Kaldadal en dagurinn endar hjá Djúpavatni í nágrenni Hafnarfjarðar. Keppninni líkur síðan laugardaginn 27. ágúst klukkan 15.00 við Perluna með tilkynningu úrslita.
Um tuttugu áhafnir eru skráðar til leiks, nýliðar og reynsluboltar í bland. Má sjá ýmis fjölskyldutengsl meðal keppenda, t.d. munu systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn aka saman en bróðir þeirra Marian Sigðursson ekur ásamt Ísak Guðjónssyni.
Skagfirðingarnir Baldur Haraldsson og Katrín María Andrésdóttir mæta einnig til leiks reynslunni ríkari eftir síðustu keppni. Þórður Ingvason komst einnig á bragðið eftir að hafa unnið til verðlauna í Skagafjarðarrallinu í júlí en hann mun nú aka ásamt Snorra Sturlusyni á nýrri Subaru Impreza bifreið sinni. Bílaklúbbur Skagafjarðar mun því eiga 4 þátttakendur en alls taka 40 keppendur þátt eða 20 áhafnir.
Rallökumaðurinn Þorkell Símonarson ekur ásamt Þórarni K. Þórssyni á Toyota Hilux. Þeir félagar safna jafnframt áheitum til styrktar Grensás en í haust eru 30 ár síðan Keli slasaðist lífshættulega í bílslysi í Miklaholtshreppi. Keli, sem hafði verið á ferð með félaga sínum, var klipptur úr bifreiðinni er þeir lentu utan vegar. Flogið með þá suður til Reykjavíkur en Kela var ekki hugað líf. Eftir legu á Borgarspítalanum tók við erfið endurhæfing á Grensás en hann var ákveðinn í að lífið skyldi halda áfram. Það hefur honum tekist því þrátt fyrir að afleiðingar slyssins fylgi honum alla ævi er hann Íslandsmeistari jeppaflokks í rallý 2015 og rekur eigið fyrirtæki. Sannast því hjá honum að það er líf eftir slys og endurhæfingu, „það er hægt að halda áfram”
Keli og Þórarinn safna áheitum undir slagorðinu „Rallað fyrir Grensás” í samvinnu við Hollvinasamtök Grensás, hægt er að heita á þá í gegnum Facebook eða heimasíðu Hollvina Grensás, grensas.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.