Badmintonkrakkar Tindastóls kræktu í marga sigra um síðustu helgi
Um síðustu helgi tóku fjórir keppendur badmintondeildar Tindastóls þátt í mótum á vegum Badmintonfélags Hafnafjarðar. Í færslu Freyju Rutar Emilsdóttur á Facebooks-síðu deildarinnar segir að á laugardeginum hafi Emma Katrín tekið þátt í Bikarmótinu en þau Ingi Þór, Sigmar Þorri og Júlía Marín í Snillingamótinu daginn eftir.
Júlía Marín Helgadóttir, Ingi Þór Gunnarsson
og Sigmar Þorri Jóhannsson.
Emma keppir í U13A og lenti hún í 2. sæti í sínum riðli en þau Ingi Þór, Sigmar Þorri og Júlía Marín í U11, en þar er ekki spilað um sæti.
„Krakkarnir spiluðu hörkuleiki, kræktu í marga sterka sigra og stóðu sig mjög vel, þau eru félaginu okkar sannarlega til sóma. Alls spiluðu Tindastólskrakkarnir 15 leiki um helgina og náðu í 10 sigra. Frábært fyrsta mót hjá Badmintondeild Tindastóls!“ skrifar Freyja Rut. Jafnframt kemur fram að Badmintonsamband Íslands hafi ákveðið að gefa ungum iðkendum félaganna um land allt sumargjöf nú í lok tímabils og hvetur Freyja Rut því alla til að drífa í að skrá krakkana inn á Nora. „Ef allt verður komið í réttar skorður stefnum við á að halda foreldraæfingu þann 25. maí, þar sem við slúttum vetrinum og kennum foreldrum nokkur góð trix til að geta haldið í við krakkana í útilegu-badmintoni sumarsins.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.