Avis samningur, frískir nýliðar og árshátíð GSS
Í gær var undirritaður samningur milli GSS og Avis bílaleigu til tveggja ára. Avis er einn af samstarfsaðilum GSS og eru veifur á flaggstöngum á öllum flötum merktar Avis. Þar að auki er Avis styrktaraðili á opna Avis mótinu sem verður laugardaginn 24. júlí, en þar verða veglegir vinningar. Samningurinn felur í sér ákvæði um styrk og leigu GSS á bílum frá Avis. Samninginn undirrituðu Baldur Sigurðsson frá Avis og Kristján Bjarni formaður GSS.
Félagsmönnum GSS hefur fjölgað ört undanfarin tvö ár og ljóst að fjölga þarf holum og flöggum ef sú þróun heldur áfram. Golfíþróttin hefur slegið í Skagafirði, líkt og víða um heim. Svokallað vanur/óvanur mót var spilað mánudaginn 5. júlí. Met var sett í þátttakendafjölda á slíku móti hjá GSS, um 80 manns skemmtu sér vel og snæddu pizzur í mótslok í skálanum sem vart rúmaði fjöldann.
Meistaramót GSS hefst miðvikudaginn 7. júlí og stendur til laugardags. Á laugardaginn verður svo glatt á hjalla á árshátíð GSS þar sem félagsmenn koma saman, vanir og óvanir. Dagskráin er ekki af verri endanum. Mateðillinn er í öruggum höndum Kristins Gísla. Hinn eini sanni Geirmundur tekur nokkur lög og fær liðsstyrk frá öflugum látúnsbarka GSS. Stórskemmtilega bandið Danssveit Dósa mun svo halda uppi tempói og sveifla fólkinu. Veislustjóri verður enginn annar en sr Hjálmar Jónsson kylfingur með meiru.
Formaður GSS bindur sérstakar vonir við að nýliðar GSS muni taka árshátíðina með trompi.
Árshátíð GSS 2021
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.