Austfirðingarnir voru snarpari gegn Stólunum

Konráð Freyr, fyrirliði og aðstoðarþjálfari Tindastóls. MYND: ÓAB
Konráð Freyr, fyrirliði og aðstoðarþjálfari Tindastóls. MYND: ÓAB

Tindastóll og Höttur/Huginn mættust á Sauðárkróksvelli í 3. deildinni í knattspyrnu í dag í ágætu veðri. Þetta var fyrsti leikur Tindastóls í deildinni en gestirnir höfðu áður borið sigurorð af liði Sindra. Leikurinn var ágætlega spilaður á köflum, tvívegis náðu heimamenn forystunni en það var gestirnir sem voru snarpari og sköpuðu sér betri færi og fór svo að þeir renndu austur með stigin þrjú með sér. Lokatölur 2-3.

Tindastólsmenn fengu óskabyrjun þegar Pape Mamadou Faye skoraði laglegt mark með hörkuskoti á 10. mínútu. Það tók gestina aðeins tvær mínútur að kvitta fyrir en Pablo Garcia skoraði með skalla eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn Tindastóls. Halldór Broddi fylgdi eftir ágætri sókn Tindastóls á 22. mínútu og setti boltann í netið á fjærstöng og Stólarnir leiddu í hálfleik.

Eftir tæplega tíu mínútna leik í síðari hálfleik jafnaði Ion Machi leikinn á ný. Hann fékk boltann á auðum sjó eftir að félagar hans fóru upp vinstri kantinn og skoraði af öryggi. Skömmu áður hafði Halldór Broddi fengið að líta gula spjaldið og 58. mínútu fékk hann annað gula spjaldið sitt eftir að hafa lent í samstuði við leikmann gestanna við vítateigslínuna. Kannski pínu óheppinn með þetta spjald. Stólarnir vörðust ágætlega en gestirnir voru snarpir og sóknir þeirra hættulegri en heimamanna. Sigurmark leiksins kom á 82. mínútu eftir hornspyrnu frá vinstri, Knut Myklebust flikkaði boltanum aftur fyrir sig á nærstöng og leikmönnum Tindastóls mistókst að koma boltanum frá og í markið fór hann. Austfirðingarnir hefðu getað bætt við marki í uppbótartíma, fengu þá vítaspyrnu en Atli Dagur varði slaka spyrnuna.

Í raun var margt jákvætt í leik Tindastóls og gott spil gladdi augað. Árni Arnarson var kominn inn á miðjuna og hann og Konni búa báðir yfir flottri sendingagetu og Árni reynslubolti. Spánverjarnir sýndu ágæta takta og Pape fór vel af stað. Þessir kappar eru þó tiltölulega nýkomnir til liðs við Stólana og eiga eflaust eftir að falla betur inn í leik liðsins.

„Margt sem við getum bætt,“ segir Konni

Feykir fékk Konráð Frey, aðstoðarþjálfara og fyrirliða Tindastóls, til að svara örfáum spurningum og byrjaði að spyrja hvað hann var sáttur með í leiknum. „Ég var ánægður að hvernig nýju leikmenn pössuðu vel í hópinn og fyrri hálfleikurinn var allt í lagi af okkar hálfu, það er margt sem við getum bætt, en við verðum að taka inní myndina að þetta er fyrsti leikur okkar allir saman og nú getum við farið að slípa saman leikstíl okkar. “

Hvernig líst þér á nýja leikmenn Tindastóls? „Mjög vel, þetta eru allt góðir fótboltamenn. Spánverjarnir eiga bara eftir að venjast tempóinu í deildinni og eiga eftir að reynast okkur vel er ég viss um. Pape er alvöru framherji sem á eftir að skora fyrir okkur, hann dregur mikið til sín og er góður í fótbolta,við eigum eftir að læra betur inn á hann. Árni kom mjög vel inní þetta, við vitum hvað hann getur og hann á eftir að reynast okkur mikilvægur í sumar, gaman að geta spilað með honum aftur.“

Hvernig leggst tímabilið í þig? „Tímabilið leggst vel í mig, tel okkur eiga eftir að verða betri og betri þegar líður á. Undirbúningstímabilið hefur verið skrítið og krefjandi en spennandi að fá loksins mynd á hópinn og við getum unnið út frá því,“ segir Konni að lokum.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Elliða í Árbænum laugardaginn 22. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir