Átta krakkar úr Tindastóli á æfingu með norðlenskum úrvalshópi U16

Árdís Líf Eiðsdóttir, Birgitta Rún Finnbogadóttir, Elísa Bríet Björnsdóttir, Elísabet Nótt Guðmundsdóttir, Hulda Þórey Halldórsdóttir, Katla Guðný Magnúsdóttir og Sigríður H. Stefánsdóttir eftir æfinguna í dag. MYND: TÓTI
Árdís Líf Eiðsdóttir, Birgitta Rún Finnbogadóttir, Elísa Bríet Björnsdóttir, Elísabet Nótt Guðmundsdóttir, Hulda Þórey Halldórsdóttir, Katla Guðný Magnúsdóttir og Sigríður H. Stefánsdóttir eftir æfinguna í dag. MYND: TÓTI

Í dag fór fram æfing úrvalshóps U16 í Boganum á Akureyri þar sem stelpur og strákar af Norðurlandi komu saman og æfðu knattspyrnu. Það var Magnús Örn Helgason, þjálfari U17 kvenna, sem stýrði æfingunni. Jafnt var í hópunum, 24 stúlkur og 24 strákar, en af þeim 48 sem þátt tóku í æfingunni voru átta krakkar frá Umf. Tindastóli sem verður að teljast magnað.

Krakkarnir komu flestir frá Akureyri, Dalvík, Sauðárkróki og Húsavík. Strákarnir sem voru valdir frá Tindastóli voru Hilmar Örn Helgason og Viktor Smári Davíðsson. Árdís Líf Eiðsdóttir, Elísabet Nótt Guðmundsdóttir, Hulda Þórey Halldórsdóttir, Katla Guðný Magnúsdóttir, Sigríður H. Stefánsdóttir, Birgitta Rún Finnbogadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir skipuðu stúlknahóp Tindastóls en tvær þær síðastnefndu koma frá Skagaströnd en eru skráðar í Tindastól.

Hópurinn hefur áður komið saman til æfinga fyrr í haust og kemur saman á ný í desember. Það er til nokkurs að standa vel í lappirnar á æfingunum því þeir sem heilla þjálfarana og komast í lokahópinn mæta fyrir Íslandshönd til Danmerkur snemma á næsta ári, sennilega í febrúar eða mars. Þar munu strákarnir spila tvo leiki við dönsk félagslið en að sögn Þórarins Sveinssonar, yfirþjálfara yngri flokka hjá Tindastóli, þá gengur verr að tryggja leiki fyrir stúlkurnar en það mun væntanlega hafast fyrr en síðar.

Tóti er hæstánægður með hversu marga fulltrúa Tindastóll átti í hópnum. „Við eigum flotta krakka, þau stóðu sig öll vel á æfingunni og allir glaðir!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir