Árskóli í 10. sæti í Skólahreysti

Tólf skólar mættust í úrslitakeppni Skólahreysti í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið og var keppnin sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Árskóli á Sauðárkróki hreppti 10. sætið í keppninni, en 114 skólar hófu keppni í haust.

 Holtaskóli í Reykjanesbæ bar sigur úr býtum í keppninni, Síðuskóli á Akureyri varð í öðru sæti og Stóru-Vogaskóli úr Vogum í þriðja sæti. Íslandsmet var sett í upphífingum og Íslandsmetið í hraðabraut var jafnað.

Holtaskóli úr Reykjanesbæ er sigurvegari Skólahreysti – hreystikeppni grunnskólanna – árið 2016 eftir spennandi og skemmtilega úrslitakeppni í Laugardalshöll miðvikudaginn 20. apríl. Þetta er fimmti sigur Holtaskóla í Skólahreysti á síðustu sex árum en skólar af Suðurnesjum hafa nú unnið sjö keppnir í röð.

Síðuskóli á Akureyri tryggði sér annað sætið og silfur með glæsilegum árangri og Stóru-Vogaskóli úr Vogum varð í þriðja sæti og fékk bronsið. Keppnin var afar jöfn en fimm skólar unnu hver sína þraut. Tólf skólar af öllu landinu unnu sér keppnisrétt í úrslitum en yfir 100 skólar hófu keppni í ár. Stemningin var engu lík í Höllinni en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Landsbankinn er stoltur bakhjarl Skólahreysti og bankinn færði skólunum og keppendum vegleg verðlaun.

Nýtt Íslandsmet og Íslandsmetsjöfnun

Keppnin í ár hófst með látum þegar Hjálmar Óli Jóhannsson úr Egilsstaðaskóla gerði flestar upphífingar og setti glæsilegt Íslandsmet í þrautinni. Hann tók 61 upphífingu en fyrra met var 57 stykki.

Katla Björk Ketilsdóttir úr Holtaskóla sigraði armbeygjukeppnina með 54 armbeygjur og kom Holtaskóla í forystu snemma leiks. Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson úr Laugalækjarskóla tók 52 dýfur og vann þrautina eftir jafna og spennandi keppni. Helena Gísladóttir úr Stóru-Vogaskóla stóð sig best í Hreystigreip og náði glæsilegum tíma með því að hanga í 5.32 mínútur.

Í hraðaþrautinni jafnaði Síðuskóli Íslandsmetið með því að fara þrautina á 2.05 mínútum. Það voru þau Embla Dögg Sævarsdóttir og Raguel Pino Alexandersson sem kepptu fyrir Síðuskóla.

Aðrir skólar í úrslitum í ár voru Árskóli á Sauðarkróki, Egilsstaðaskóli, Grundaskóli á Akranesi, Grunnskólinn á Ísafirði, Hagaskóli, Kelduskóli og Laugalækjarskóli frá Reykjavík, Hvolsskóli á Hvolsvelli og Lindaskóli úr Kópavogi.

Landsbankinn óskar keppendum og skólum þeirra til hamingju með frábæran árangur í vetur.

Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir