Arnar Freyr funheitur í landsliðinu
Stutt er á milli stórmóta hjá íslenskum íþróttamönnum en nú stendur HM í handbolta yfir í Frakklandi. Liðið er nokkuð breytt frá fyrri mótum og margir nýliðar sem fá að spreyta sig. Einn þeirra er Frammarinn, Arnar Freyr Arnarsson, en hans tenging við Norðurlandið er að hann er sonur Arnars Þórs Sævarssonar bæjarstjóra á Blönduósi.
Arnar Freyr hefur heldur betur stimplað sig inn í landsliðið eftir þá tvo leiki sem liðið er búið að spila, skorar grimmt og verst vel. Arnar Freyr er línu- og varnarmaður og gengur undir gælunafninu hrærivélin, eða Kitchenaid, meðal félaga sinna í liðinu, hvernig sem á því stendur. Sjá HÉR
Arnar Freyr er fæddur 1996, uppalinn FRAMari en leikur nú með IFK Kristianstad í Svíþjóð. Hann átti sitt fasta sæti í yngri landsliðum Íslands og fyrir þetta mót leikið alls fjóra landsleiki með A landsliðinu án þess að skora mark. En nú hefur hann sýnt að hann er framtíðarmaður.
Það vakti athygli blaðamanns Vísis.is í fyrsta leik að hann benti alltaf á ákveðinn stað upp í stúku þegar hann skoraði mörkin sín fjögur. „Pabbi minn var í stúkunni. Hann setti kröfur á mann þannig ég var bara að sýna honum að ég gæti þetta,“ sagði Arnar Freyr við Vísi.
Næsti leikur Íslands er á morgun gegn Túnis og þá verða Arnar Freyr og félagar að hafa betur til að eiga möguleika á frama í mótinu. Hefst útsending RÚV kl. 13:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.