Annað erfitt tap Tindastólsstúlkna
Tindastólsstúlkur sóttu Stjörnuna heim í Garðabæinn í dag í 1. deild kvenna í körfubolta. Heimastúlkur náðu snemma yfirhöndinni og stungu raunar gestina af strax í fyrsta leikhluta. Vonandi tekst að styrkja lið Tindastóls von bráðar því það er erfitt að fá ítrekað skelli. Lokatölur voru 90-48.
Heimastúlkur náðu forystunni í byrjun en Marín Lind, sem átti hreint ágætan leik, svaraði með þristi og það var eina skiptið sem lið Tindastóls var yfir í leiknum, 2-3. Eva Rún jafnaði metin, 6-6, með öðrum þristi en síðan sögðu Garðbæingar bæbæ og gerðu næstu 16 stig leiksins. Eva Rún gerði sex stig til viðbótar undir lok fyrsta leikhluta og staðan 25-12 að honum loknum. Heimastúlkur voru fljótlega komnar með 19 stiga forystu í öðrum leikhluta en þristar frá Marín Lind og Karen Lind löguðu stöðuna, 35-22. Það dugði þó skammt því við tók 11-1 kafli Stjörnunnar og staðan í hálfleik 46-23.
Garðbæingar héldu áfram að auka forystuna í þriðja leikhluta og voru 35 stigum yfir að honum loknum, 77-42. Heldur hægðist á stigaskorinu í fjórða leikhluta en lokatölur sem fyrr segir 90-48.
Marín Lind var stigahæst í liði Tindastóls með 18 stig en Eva Rún og Eva Wium gerðu báðar níu stig í leiknum en Eva Wium hirti a.m.k. 13 fráköst. Skotnýting Stólastúlkna var talsvert betri utan 3ja stiga línunnar en innan hennar, heimastúlkur tóku 55 fráköst en lið Tindastóls 32 og eiginlega bráðnauðsynlegt að næla í stóran leikmann til að styrkja liðið undir körfunni.
Næsti leikur Tindastóls verður gegn liði ÍR sem hefur unnið alla leiki sína hingað til. Leikurinn verður í Breiðholtinu þann 13. febrúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.